|
|
|
Helga Óskarsdóttir |
Myndlistardreifing/Art distribution |
18. 11. 2006 - 10. 12. 2006 |
|
Laugardaginn 18.nóvember opnar Helga Óskarsdóttir klukkan 17.00.
Sumarið 1964 var svissneski Fluxuslistmaðurinn Daniel Spoerri á ferð í fjöllunum fyrir ofan Costa del Sol á Suður-Spáni og tók eftir því að gamlar konur tíndu gjarnan upp steina úr götunni og röðuðu þeim kringum krossa sem stóðu hér og þar við leiðina. Það var ekkert sérstakt við þessa steina og enginn gat útskýrt fyrir Spoerri hvers vegna gömlu konurnar gerðu þetta en honum varð það svo hugleikið að næstu árin fór hann sjálfur að tína upp ýmsa hluti hvar sem hann ferðaðist, safna þeim saman og gefa síðan vinum og kunningjum eftir því sem honum þótti við eiga. Dótið líktist örlítið verndargripum töfralækna sem safna hinu og þessu í litla poka sem klíentar þeirra bera svo á sér til verndar. En Spoerri leit ekki á sig sem töfralækni og fór ekki eftir neinni formúlu heldur lét bara tilfinningu og tilviljun ráða og þess vegna kallaði hann þessa iðju sína Magique à la Noix, galdur fyrir hneturnar eða galdur til einskis. En galdur var það samt.
Helga Óskarsdóttir laðaðist líka fyrir löngu að alls kyns dóti sem hún rak augun í á göngum sínum um Amsterdam og Lundúnir þar sem hún sótti listaskóla. Stundum lét hún sér nægja að raða nokkrum hlutum saman og skilja þá eftir á götunni þar sem aðrir gætu séð þá og kannski farið að velta fyrir sér samsetningunni en stundum hefur hún líka safnað þeim saman og sett fram sem verk á sýningu, líkt og útstillingu á forngripa- eða náttúrusafni. Þannig hefur hún orðið eins og náttúru- eða fornleifafræðingur í samtíma sínum, safnar upp ýmsu og miðlar því síðan aftur til okkar hinna svo við getum hugsanlega haft af því einhver not eða innblástur. Kannski ræður hending því hvað hún finnur og ber fyrir okkur en í hendingunni býr líka mögnuð regla sem stundum hittir beint í mark.
Kannski skiptir heldur ekki öllu máli hver hluturinn er, hann getur allteins verið óræður gulur og steyptur í gips, og galdurinn býr þá frekar í þeirri viðleitni að halda einhverju til haga og gefa síðan öðrum, að miðla og endurmiðla einhverju í þeirri von að það komi þiggjandanum að einhverjum notum eða kveiki eitthvað með honum. Þar sjáum við aftur hnetulíkinguna frá Spoerri og getum hugsað okkur hlutinn sem eins konar fræ: Fræ spírar og vex ef það ber í frjóan jarðveg og þannig getur hluturinn spírað og vaxið í viðtakandanum þótt við sjáum kannski ekki fyrirfram hvað sprottið geti af honum.
Gulmáluðu fræin sem sýningargestir fá að gjöf frá Helgu bera tilganginn ekki utan á sér. Formið fer reyndar vel í hendi og hlutirnir eru þægilega massífir og fastir í sér, eins og gott verkfæri, gerðarlegir, en þótt Helga velti upp ýmsum notkunarmöguleikum fylgir þeim enginn klár forskrift, enginn fyrirfram gefin merking. Ef þeir nýtast er það ekki vegna þess að hún hafi markað þeim tilgang heldur verður tilgangurinn ljós hjá viðtakandanum, kannski, kannski ekki, kannski einhvern tímann. Það er undir svo mörgu komið og enginn getur séð það fyrir, hvorki listamaðurinn, galleristinn eða viðtakandinn. Þannig birtir þessi sérstæða dreifing ókeypis gulra gipsfræja eitthvað sem telja má nálægt kjarna listmiðlunarinnar en verður illa samrýmt listaviðskiptunum, listsölubransanum og listvörumessuhringekjunni. Það er hin óvissa tilraun listamannsins til að sá einhverju í huga og tilveru áhorfandans, upp á von og óvon og án þess að heimta neitt í staðinn.
Jón Proppé
|
|
|
|
|
|
|
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík
kob@this.is |