ljosaskiptiweb
Ásdís Sif Gunnarsdóttir-Daníel Björnsson-Hekla Dögg Jónsdóttir-Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Ljósaskipti - Jólasyning Kling & Bang / Twilight Zone - Kling & Bang´s Christmas show
22. 12. 2006 - 28. 01. 2007
 
Opnun föstudaginn 22.október klukkan 18
Performance á opnun klukkan 18.10

Fjórir ljós-álfar með þráhyggju fyrir ljósum, glamúr, áhugamála-tækni og náttúru innan þroskaðrar mannlegrar tilveru sem tilbiður æskuna og sakleysisleg undur hinna innri og ytri heima…..

Dýrðin ein.

Og sjá; hvernig tungumál ljóss, dulúðar, hrifningar, viðkvæmni, lotningar og
dýrðar tekur á sig mynd.

Listamennirnir Hekla Dögg Jónsdóttir, Daníel Björnsson, Sirra Sigrún
Sigurðardóttir og Ásdís Sif Gunnarsdóttir sýna saman á dimmasta tíma ársins
af því að þau eiga það sameiginlegt að búa til verk sem eiga best heima í
myrkri. Þau hrífast af verkum hvors annars enda tengjast þau inn í
sameiginlegt sjónrænt tungumál; að hrífast af ljósum, skærum litum og
dularfullum atburðarrásum í daglegu lífi. Þau hrífast af viðkvæmum efnum og
sjá gersemar og galdur í hlutum sem að aðrir sjá kannski ekki. Þetta er
sjónrænt tungumál sem trúir sérstaklega á innsýn og gáfuna til þess að
hlusta á sjötta skilningarvitið. Að rata á stjörnuhrap af því að
skilningarvitin finna að það er eitthvað í loftinu.

"Ljósaskipti" Þessi sýning er fyllt af gosbrunnum, handverki byggðu á vísindum, varðeldi, sykri, blikkandi ljósum, rjómtertum, frosti, hvirfilbyl og sólkerfum.
Andinn er í hvaða efni sem er.


Daníel: Hann er með missjón og er krossfari listarinnar. Ekki bara sinnar
listar heldur listarinnar allrar. Hann er kannski listagyðja en ef hann væri
ekki listamaður þá væri hann bóndi. Hann hugsar um symbolisma og hlustar svo
fallega á umhverfið. Hjálpsamur með hlýjar og nærgætnar gáfur. Er hrifinn af
ljósi í myrkri og frosti. Varpar ljósinu inn í eitthvað sem honum finnst
ekki endilega vera fallegt. Gerir sykur hættulegan og eplin eru jafnvel
frosin og koma úr öðrum heimi. Karlmaður sem notar epli í symbolisma eins og
jólasveinninn gerir reyndar líka. Annars er það bara Eva, systur hennar og
svo Daníel. Notar súkkulaði gosbrunna og ljósakúlptúra sem eiga heima í
himnaríki og helvíti á jörðu. Hann kemur auga á jafnvægið þar á milli.



Sirra: Hún er með Augu. Er öll svona lítil og smábeinótt með mest intense
augnaráð sem smýgur inní mann með gáfu og gæsku. Fínleg einsog lítil stelpa,
vandvirk og hugsandi. Alvarleg og góð. Rauðhærð, hreyfingarnar hægar og
yfirvegaðar. Hún er líkamleg einsog verkin hennar voru, svo hefur hún fært
sig yfir í svimann: fána, fimleika og sirkus hins andlega. Er hrifin af
sjónrænum brellum og sjónhverfingu. Hún hefur gert styttur sem snúast ofan á
speglum. Hvirfilvindur er orðin að hringekju. Manni svimar.



Ásdís: Ákveðin og viðkvæm í senn, alger vera. Spennt, mild, góð, trygg og
gríðarlega tilfinninga-greind. Eins og ljós, getur lýst upp rými, ekki bara
með verkum sínum einsog allir vita, heldur er nærvera persónunnar ein
nægjanleg birta. Hún trúir á meðvitaða tilviljun, að það sé hægt að galdra
með undirmeðvitundinni. Það að búa til listaverk sé einsog að ganga í gegnum lífsreynslu, á við ef listamaðurinn leyfir sér það. Hún leyfir sér það. Trúir ekki á að skipuleggja né stjórna framvindunni of mikið. Treystir listinni til að gerast og verða til einsog lífið sem hefur lag á að
leysa sig sjálft.



Hekla: Hefur óteljandi nema sem þreifa sig út í samfélagið og senda boð til
heilans hennar og hjartans. Skilaboð sem leyfa henni að skilja hvernig öllum
líður og hvernig allt er. Svo segir hún það; segir hvernig hlutirnir eru.
Eins og Jóhanna af Örk með réttlætiskenndina svo sterka, með blíðu sem fer á
fínlegan máta í algera hreinskilni. Gerir óskabrunna og verk um hið
fullkomna augnablik lífsins. Hún byrjaði að trúa á galdra þegar hún var
lítil og sá stjörnuhrap. Hún trúir að efni sem notuð eru í listaverk þurfi
ekki að vera dýr til þess að verkið umbreytist í dýrt listaverk. Hún er
alkemisti.


Texti: Ásdís Sif Gunnarsdóttir og Gunnhildur Hauksdóttir.
 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is