kb_fjall_15x15_300dpi
Kristján Björn Þórðarson
Spegillinn hefur ekkert ímyndunarafl / The mirror has no imagination
08. 03. 2008 - 05. 04. 2008
 
Laugardaginn 8.mars geta listunnendur tekið gleði sína á ný því þá mun Kling & Bang gallerí opna í nýju húsnæði. Kling & Bang gallerí var áður til húsa á Laugavegi 23 í um það bil 5 ár en hið nýja stórglæsilega húsnæði er á Hverfisgötu 42 (sem áður var samkomusalur Samhjálpar) og eru allir hjartanlega velkomnir að koma og fagna þessum tímamótum.
Fyrstur til að sýna í hinu nýja húsnæði er Kristján Björn Þórðarson með sýningu er ber heitið Spegillinn hefur ekkert ímyndunarafl. Kristján Björn útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og þaðan lá leiðin til Vínarborgar þar sem hann komst inn í skólann sem hafnaði Hitler, skólann Akademie der Bildende Kunste Wien. Kristján var þar í námi hjá prófessor Frans Graf á árunum 2003 til 2006.
Á sýningunni í Kling & Bang gallerí verður boðið uppá ferðalag um þjóðgarð mannsandans og um göngustíga hugans. Helíumfyllt fjallasýn mun svífa yfir pöllum sem liggja til allra átta, frá fjallakofa hugsanna til náðhúss losunar með viðkomu á ylströnd uppsprettunnar. Ef það er ekki nóg mun túristabúðin svo sjá um minjagripina frá ferðalaginu um þennan skapaða innri heim. Gestum er ráðlagt að treysta á sitt innsæi og ímyndunarafl þegar þeir koma í þennan þjóðgarð myndlíkinga sem Kristján Björn hefur búið til og þá fyrst finna þeir kannski lyktina af gervinu í grasinu.
Sýningin opnar laugardaginn 8.mars klukkan 17 og mun standa til sunnudagsins 5.apríl. Kling & Bang gallerí er opið fimmtudaga - sunnudaga frá kl.14 -18. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

ÞJÓÐGARÐUR MYNDLÍKINGA

Rannsóknir, greiningar og kortlagning þess heims sem við köllum raunheim eða efnisheim hefur verið viðfang og aðferðafræði raunvísinda og náttúruvísinda allt frá tímum endurreisnar og upplýsingar. Það sem ekki er hægt að spegla eða mæla er einfaldlega ekki til í hugum ótrúlega margra - þeirra sem treysta ekki innsæi sínu og ímyndunarafli. Listamenn tóku þó fullan þátt í þessari afhelgun í nafni framfara og einstaklingshyggju. Listin eftir endureisnartímabilið varð spegill samfélagsins og náttúrunnar séð frá einum upphafspunkti eða sjónarhóli einstaklingsins. Hún varð að framsetningu hins hrokafulla valds bæði þess veraldlega og þess kirkjulega. Sú sýn hangir nánast saman við efnishyggju og bókstafstrú því mannsandinn var á góðri leið með að greina allt, kortleggja allt af þessum heimi, vita allt nema eitt og það var að hann skildi ekki neitt. Hann nánast studdist ekki lengur við myndlíkingar sem eru tæki skilningsins. Bókstafstrú og spegilmyndir eru nefnilega andstæður skilningsins og leitarinnar inn á við - ferðalagsins handan spegilsins sem sjálfur hefur ekkert innsæi, ímyndunarafl eða uppljómun. Það voru og eru auðvitað til viðspyrnur við þennan jarðbundna hugsunarhátt á öllum tímum. Það var til dæmis mikil viðspyrna á 19. öld - þegar hið rómantíska ljós leiddi þjóðirnar til sjálfstæðis. Það var einmitt þetta innra ljós sem útbjó ímyndina Ísland á sínum tíma. Þar var fjallkonan, skjaldmeyjan og kyndilberinn myndlíkingin. Því er meira að segja haldið fram að frumkvöðlar módernismans, listamenn eins og Mondrian, Paul Klee, Kandinsky og Malevich hafi verið á kafi í dulspeki - leiðin frá objektífisma til abstraktsjónar séu myndhvörf frá veraldarhyggju til andlegrar vakningar. Pop-listin var líka svona viðspyrna gegn efnishyggju. Þar komu íkonin aftur fram - íkonin í anda Duchamps. Íkon eins og kvikmyndastjörnur, gallabuxur, kókflöskur eru af ætt ready-made Duchamps og tala til okkar eins og íkon miðalda. Annarrar viðspyrnu við efnishyggju og gleðipoppi síðasta áratugs síðustu aldar fór að koma fram við aldamót og við upphaf nýrrar aldar, þeirrar tuttugustu og fyrstu. Myndlíkingar fara sjást jafnvel í dægurmenningu, alkemían farin af stað. Endurvakning miðaldanna á sér allstaðar stað í samtímanum. Hvað bíður okkar? Hvað er bak við ystu sjónarrönd? Liggur þangað beinn og breiður stígur eða þarf ég að stíga á gervigrasið?Hér er boðið upp á ferðalag um einskonar þjóðgarð mannsandans, um göngustíga hugans. Þarna er fjallið. Reyndar rótlaust hangandi á blöðrum. Já, miðjusetta fjallið í rómantískum landslagsmálverkum, fjallið eina eins og hjá Caspar David Friedrich eða hið heilaga fjall Jodorowskys. Trúin flytur fjöll! Hið reisulega fjall, drottning fjallanna, hamraborgin há og fögur. Bergkastalar. „Eldur býr í ógnardjúpi undir köldum jökulhjúpi“. „Eldhjarta slær undir mjallhvítum barmi“. Þetta er hið rómantíska minni. Þarna er fjallakofi, hýsill hugsanna. Þarna er tré við náðhúsið. Tré skilningsins, samstofna orðinu „truth“ eða sannleikur. Náðhúsið, losunin, skriftarstóllinn þar sem þarf að leysa úr skjóðunni en ekki kasta henni framhjá til að fá aðgöngu að paradís. Þarna er ylströndin, uppsprettan, heit lind við hafið - fæðingastaður kirkjunnar, lindin. Hér er túristabúð með minjagripum frá löndum hugans. Það er nefnilega erfitt að tala um þennan innri heim nema í líkingamáli og í myndhvörfum. Listaverk í þessum anda eru í raun ekkert annað en minningar og minjagripir frá ferðalögum um þennan innri heim.

goddur






Kling & Bang gallerí
staðsetning: Hverfisgata 42 - 101 Reykjavík
póstfang: P.O. Box 1450 - 121 Reykjavik
e-mail: kob@this.is
 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is