minnix
Sara Riel 2009
RETURN TICKET
07. 02. 2009 - 08. 03. 2009
 
OPNUN LAUGARDAGINN 7.FEBRÚAR KL.17.00

Sýningin RETURN TICKET byggist á sýningunni MADE IN CHINA, sem Sara Riel vann í Xiamen, Kína á fyrstu mánuðum ársins 2008. Verkin eru unnin út frá þeirri upplifun að vera staddur á nýjum stað, rekast stöðugt á nýjar upplifanir, þeirra á meðal tilfinningunni að vera einangraður í einu fjölmennasta landi heims. Áhrifa Tai Chi og kenninga því tengdu gætir einnig í verkunum; mikilvægi flæðis og að finna jafnvægi í öllu, að skilja að það er svartur í hvítu og hvítt í svörtu, þ.e yin í yang og yang í yin.

Verkin hafa verið að þróast frá því þau voru síðast sýnd, og að auki hefur Sara unnið glæný verk sem eru framhald á hugmyndum og minningum þar sem hún veltir fyrir sér reynslu frá tímabilinu í Kína frá nýju sjónarhorni; því sem maður uppsker þegar heim er komið og litið er um öxl.

RETURN TICKET samanstendur af innsetningu, málverkum, ljósmyndum, vídeó, klippimyndum og teikningum.

Myndlistakonan Sara Riel (1980) er búsett og starfar í Reykjavík. Sara útskrifaðist úr Kunsthochschule Berlin-Weissensee 2005. Hún yfirgaf skólann 2006 eftir að hafa unnið til DAAD verðlauna og verið sæmd titlinum Meisterschuler.
Strax á námsárunum varð Sara virk í sýningarhaldi, bæði í hvítum kössum sem og á götum ýmissa borga víðsvegar um heiminn, þar sem hún varð virkur þátttakandi í Urban art senu Evrópu.
Verk Söru eru af ýmsum gerðum og stærðum, þar sem öll efni koma til greina og allir miðlar. Hún nýtir sér til fullnustu þær aðferðir sem heimurinn býður upp á til þess að koma ákveðnum atburðum, upplifunum úr raunveruleikanum, sögum eða augnablikum á framfæri. Verkin eru frásagnakennd, þó margræðin og opin. Þeim er ætlað að virkja ímyndunarafl áhorfandans og vekja hugsanir um hverfandi augnablik. Í samanburði við bókmenntir og tónlist eru þau frekar ljóð en skáldsögur, hljóð frekar en lög. Útfærslur Söru eiga sér rætur og vísa til í götulistar (Urban Art)-popart, teiknimyndahefðar, hugmynda-og mínimalisma auk (grafískrar) hönnunar.

Sara Riel hefur m.a. sýnt verk sín á sýningunni Big Geezers í Scion gallery í L.A (2008), Made in China í Xiamen (2008), I am longing, but I don´t know for what, í Artist House í Teheran (2007), Vélakostur/Machinery í 101 gallery í Reykjavík (2007), On the edge, The Film Archieve í Auckland, New Zeland (2007), Tischgesellschaften í RAAB gallery í Berlín (2006), Ding Dong Festival í Hamburg, (2006), Das Unfassbare í 2YK í Berlín, Þýskaland (2005), Live, í Tokyo Wondersites í Tokyo, Japan (2005), Fox Project í Kaupamannahöfn (2005), Big Gs í Montana Shop & Gallery í Barcelona, Backjumps Live-Issue í Kunstraum Bethanien, í Berlin Þýskalandi (2005 og 2004), Berlin North (in collaboration with Egill Sæbjörnsson, Sigurður Guðjónsson, Ásdís Sig Gunnarsdóttir og Elín Hansdóttir) í Hamburger Bahnhof í Berín (2004), auk allra þeirra verka sem skilin voru eftir í borgunum, Berlín, Barcelona, Brussel, Kaupmannahöfn, New York, Tokyo og Reykjavík. Auk þess hafa verk Söru verið birt í bókum og tímaritum og hún hannað plötu-og bókaumslög.


Farmiðinn heim (Goddur):

Þessi sýning hefst á því að gesturinn fær farmiða. Ekki að heiman, út í heim til framandi staða, heldur farmiðann heim aftur. Þessi einstaka tilfinning að koma heim aftur. Flest er eins og það var nema við sjálf, svolítið breytt. Sjáum ýmislegt öðruvísi. Þykir vænna um allt sérstaklega það sem ekki breytist mikið. Allt sem tengist treganum. Amma og mamma. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Einmitt, rekkar í formi listaverka, frystum minningum í stað og tíma, eins og hér sjást á þessari sýningu.

Alveg frá því í barnæsku höfum við verið vöruð við landamærum, að fara ekki of langt frá túngarðinum heima. Hetjan vaknar í hjarta okkur. Styttur standa kyrrar en listamenn ekki. Og það er framkvæmdin sem skiptir máli. Ruglum ekki saman hreyfingu og framkvæmd. Eiginleg merking orðsins „heimska“ er líka um þá sem standa í túninu „heima“. Sumir fara í ferðalög án þess að hreyfa sig og sumir ferðast án þess að hreyfast. Nei, hleypa skal heimdraganum og halda út um hliðið eða út um gluggann á vit ævintýranna sem hafa engan endi. Átta sig skyndilega á því að vera staddur á stöðum sem aldrei hafa verið heimsóttir. Og heimsækja sjálfan sig í leiðinni og komast að því hvað þar býr. Þar býr líka exótík.

Að sjá íslenska þjóðarrétti, réttina hennar ömmu, reidda fram af kínverskum postulínsmeisturum með margra alda hefðir á bak við sig. Að sjá hvernig sviðakjamminn verður í einni sjónhendingu exótískur. Að sjá hvernig margra alda langur vegur taóismans nær jafnvægi í verkum íslenskrar sveitasálar. Að sjá eld, við, málm, jörð og vatn - lykilhugtök sammannlegrar gullgerðarlistar. Að búa til verðmæti úr því sem ekki teljast verðmæti. Að skynja manninn bak við tjöldin næra Koj-fiskinn. Að skynja Tai Chi flæðið í mætti blástursins og sjónhverfingarinnar. Að sjá flugdreka á hvolfi eða fludreka keppa í fjörunni í kappi við frosið stóð í miðjum jóreyk. Að sjá eyrað nema leyndarmálið. Hugurinn reikar með þessum minningum eins og hraðvirkt landrek.

List Söru Riel er ekkert annað en kortagerð af þessu landreki, þessari eyju sem hefur enga rót og kemur aldrei að öruggu fastlandi nema í formi listaverka. Á þessu svæði gagnast engin kort því þau eru úreld. Þau sem skipta einhverju eru ógerð. Áttavitar virka ekki því það eru engin segulskaut. Þar verða ferðamenn að nota innsæi og ímyndunarafl til að sjá það sem mögulega getur orðið og sem þá um leið verður hluti af þekktu svæði sem hægt er að kortleggja umsvifalaust. Ímyndunaraflið er nefnilega frumkraftur tilverunnar. Þar eigum við heima og þangað er farmiðinn heim.


Kling & Bang gallerí
Hverfisgata 42
101 Reykjavík

Opið fimmtudaga-sunnudaga 14-18
kob(at)this.is

 
 
sararmynd
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is