untitled-1
Hannes Lárusson-Sequences 2011
Hann og hún-Ég og þau / He and she-Me and them
01. 04. 2011 - 01. 05. 2011
 
Opnun föstudaginn 1.apríl kl.20.

Hannes Lárusson, heiðurslistamaður Sequences hátíðarinnar.

Ærleg skál fyrir Kling og bang


Myndbandsvélin komin á þrífótinn, umkringdur verkfæradótinu, einfalt vinnuborð, nytsamleg hrákasmíð ættuð frá Síberíu, kollur úr Góða hirðinum, snagi fyrir vinnukirtil og skotthúfu og flaska af víni innan seilingar. Ég hafði ákveðið að tálga litlar skálar/ausur samkvæmt ákveðnu skapalóni sem tækju um 50 ml. af vökva. Verkefnið fólst í því að búa til eitt stykki á klukkutíma í sex klukkutíma á dag í rúmlega viku tíma, frá fyrsta degi Sequences hátíðarinnar 2011 til hins síðasta; 60 stykki í allt. Gripirnir yrðu festir á vegginn einn af öðrum í fjórum röðum og mynduðu þannig eitt samhangandi verk um 160 x 100 cm á stærð. Þegar hverju íláti væri lokið myndi ég hella það fullt af víni sem ígildi skírnarathafnar og skála við sjálfan mig vitandi það að fátt er betra en gott vín. Síðan yrði viðurinn meðhöndlaður með góðri blöndu af appelsínu- og línolíu. Verandi í listamannshlutverkinu er erfitt að standast þá freistingu að dýfa handfanginu í sérblandaðan lit, – og eins og búast mátti við – nýjan og nýjan lit á hverjum klukkutíma.

Þetta verk er tileinkað Kling og Bang gallerí í Reykjavík sem verið hefur afdrep, skjól og áfangaheimili fyrir margan listamanninn í gegnum árin. Það er jafnframt jöfnum höndum tileinkað klassískri hugmyndalist, þar sem oft fór saman meðvituð sjálfsskoðun og næm tilfinning fyrir nærveru tímans í listsköpun, og fjölda nafnlausra handverksmanna og föndurkalla sem rembast eins og rjúpan við staurinn hver í sínu horni, ná upp meistaratöktum, hraða vélarinnar í vinnubrögðum en slá samt engar feilnótur í iðju sinni í þeirri von að gripirnir lifni við eins og Gosi í höndum Viðfinns.

Það er eitthvað hrífandi við að gera sama hlutinn aftur og aftur. Það er fín lína á milli endurtekningar og stöðnunnar, jafnvel óminnið og geðveikin eru hér eins og skuggar á þili. Að lokinni vinnuviku getur engin sagt að þessu sinni hafi listamaðurinn ekki skilað heiðarlegri vinnu.

Jú, ég ákvað að setja andlit á aususkaftið. Ég hef tekið eftir því að leikni í því að ná fram trúverðugu andliti úr eins fáum dráttum og mögulegt er virðist vera það sem gerir menn að alvöru listamönnum; ef ekki raunverulegt andlit þá andlit drauga og drýsindjöfla úr fortíð og nútíð.


Hannes Lárusson er fæddur í Reykjavík 1955. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann 1975 - 77, The Vancouver School of Art Canada 1977-79, Universita Degli Studi Di Firenze Italy 1981, The Whitney Museum Independent Study Program NewYork 1982-83.
Frá 1986 stundaði Hannes nám við Nova Scotia College of Art and Design, Halifax, Canada og lauk þaðan M. F. A. gráðu 1988. Að auki stundaði Hannes nám í heimspeki við Háskóla Íslands og lauk B. A. gráðu 1986 og námi í kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands 1998.

Hannes hefur í myndlist sinni fjallað um hlutverk og stöðu listamannsins í samfélaginu og samhengi staðbundins menningararfs og samtímalistar. Í myndlist hans á sér jafnframt stað stöðug víxlverkun við skapandi vinnu á ýmsum tengdum sviðum s. s. hönnun, sýningarstjórn, fyrirlestrahald og greinaskrif.
Sem dæmi um listsköpun Hannesar er innsetningin Hús í hús, sem sett var upp á Kjarvalsstöðum árið 2002, en í því verki er um að ræða samþættingu á handverki, hönnun, textagerð og gerningum. Meðal annarra nýlegra verka Hannesar má nefna Gulrótarregluna www.theorderofthecarrot.com sem stofnuð var 2003, innsetningarnar Take me on í South Alberta Art Gallery, Lethbridge, Canada 2004, Ubu Roi meets Humpty Dumpty (in Iceland) sett upp í Kling & Bang gallerí 2006 http://this.is/klingogbang/archive_list.php?year=2006 , Based on a Dream, Arch II, Winnipeg, Manitoba, Canada og Þríviður/Wanwood, Reykjanes Art Museum, Icel. 2008.
Á undanförnum árum hefur Hannes unnið að umfangsmiklu langtímaverkefni undir nafninu Íslenski bærinn. http://www.islenskibaerinn.com

Fyrir Sequences hátíðina 2011 mun Hannes gera nýtt verk sem sett verður upp í Kling og Bang gallerí á Hverfisgötu: Hann og hún, ég og þau/He and She, I and them. Þetta verk er gerningatengd innsetning, þar sem margvísleg efni, tækni og aðgerðir koma við sögu. Verkið opnar með formlegum hætti föstudaginn 1. Apríl kl. 20. og mun standa yfir í tíu daga og ljúka sunnudaginn 10. Apríl.
Sýning á verkunum sem eftir standa, er til 1.maí.

http://sequences.is/

Kling & Bang gallerí
Hverfisgata 42
IS-101 Reykjavik

1. apríl opnun/performance kl.20 - (Einnig opnun Sequences)
2. apríl - 10.apríl opið alla daga frá kl.14-18. Verk í gangi.
14. apríl-1.maí opið fimmtudaga-sunnudaga frá kl.14-18.


 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is