erling-poster-web
Erling T.V. Klingenberg 2012
KRAFTMIKIL KÚNST – POWERFUL PICTURES (þráhyggja-frumleiki) (obsession-original)
21. 01. 2012 - 19. 02. 2012
 
Opnun laugardaginn 21.janúar kl.17.00....

­Born To Be Wild

Ég kynntist verkum Erlings T.V. Klingenberg fyrst á útskriftarsýningu hans í Myndlista- og handíðaskólanum snemma á 10. áratug síðustu aldar. Þar sýndi hann ýmsa gripi í sýningarkössum, s.s. notaða málningarbursta, tómar málningartúbur, ljósmyndir héðan og þaðan, skissubækur og æskuverk, líkt og um yfirlitssýningu þekkts listamanns á hátindi ferils hans væri að ræða. Kaldhæðnin í verkinu fólst augljóslega í því að myndin sem dregin var upp var af Erling sjálfum, ungum listamanni við upphaf ferils síns sem hafði, þegar hér var komið sögu, ekki marga fjöruna sopið í listrænu tilliti. Í stað þess að leggja sig fram um gerð góðra málverka eins og bekkjarfélagar hans, vann Erling af kappi við sviðsetningu þessa sýndarleiks og stytti sér þannig leið beint á toppinn. Þar ákvað hann að vera og þar með birtist heiminum Erling Klingenberg eins og við þekkjum hann.

Í verkinu Listamenn-Artists sem var fyrst sýnt í Khyber galleríinu í Halifax 1995, sýndi hann röð ljósmynda þar sem andlitsmyndum af honum sjálfum var blandað (morphed) saman við andlitsmyndir af úrvali samtímalistamanna, s.s. Jeff Koons, Andy Warhol, Cindy Sherman, Jenny Holzer, Joseph Beuys o.fl. Þessar samrunamyndir skipuðu Erling í hóp með nokkrum best þekktu einstaklingum listasögu 20. aldar. Tveimur árum síðar, 1997, sýndi hann aðra röð ljósmynda þar sem sjálfsmyndum var á ný skeytt saman við andlitsmyndir annarra. Í þetta sinn urðu fyrir valinu 50 sýningarstjórar, gagnrýnendur og safnarar sem vermdu efstu sæti lista tímaritsins Art in America yfir áhrifamestu einstaklinga hins alþjóðlega listheims. Þar með skipaði Erling sér huglægan sess í innsta valdahring listheimsins sem hann hefur haldið æ síðan, í eigin huga og áhangenda hans.

Árið 2006 sýndi Erling ‘ekkert en í nýju samhengi’ í Kling & Bang, en titill sýningarinnar hefur síðan orðið þekkt vers mörgum aðdáendum hans. Þar endurgerði hann á trúverðugan hátt, öll verk á sýningu í einkasafni í næsta nágrenni2 sýningarstaðarins. Þar á meðal voru til dæmis neonverk eftir Dan Flavin, skúlptúrar úr skít og grasi eftir Dieter Roth, textaveggverk eftir Lawrence Weiner, auk margra annarra sem öll voru endurgerð í smæstu smáatriðum. Ég er þess fullviss að einhverjir gestir sýningarinnar hafi sagt sem svo að þetta gætu þeir sjálfir gert. Aðrir hafa eflaust spurt af hverju listamaðurinn gæti ekki látið sér detta eitthvað frumlegt í hug sjálfum. Þau sem það gerðu hafa ekki áttað sig á kjarna málsins (eða jafnvel gert það án þess að átta sig á því sjálf) sem er einmitt nokkuð sem listamaðurinn kann að meta. Enn og aftur tókst Erling að varpa kaldhæðnu ljósi á aðferðafræði og innviði listheimsins, heima og heiman.

Í gegnum árin hefur hann jafnan staðsett sig í miðju sköpunarverka sinna, bókstaflega í verkum á borð við Digging-(One is the loneliest number), röð þrívíðra leirverka mótuðum með ákveðnum líkamshluta, en einnig í óeiginlegri merkingu með síendurtekinni notkun á nafni sínu og (í)mynd sem viðfangsefni og efnivið. Í The Klingenberg Case svo að dæmi sé tekið, voru gestir sýningarinnar hvattir til að setja upp nokkurs konar hrekkjavökugrímur með andlitsmynd af listamanninum. Við annað tækifæri lét hann gera silíkon gúmmístyttu í líkamsstærð, sjálfsmynd frá toppi til táar.
Í tæpa tvo áratugi hefur hann fengist við hin ytri tæki og tól listarinnar sem og minna sýnilega fylgihluti hennar, s.s. kvíða og þrána eftir frægð en hann hefur einnig fitlað í skynjun okkar áhorfenda. Þess vegna velti ég fyrir mér hvað sé á seyði að þessu sinni. Það læðist að mér sá grunur að ekki sé allt sem sýnist.

Skvettiverk eins og listamaðurinn nefnir þau, prýða veggi gallerísins. Litir og hreyfing og hin frjálsa myndbygging verkanna eru kunnugleg og minna á liðna tíma, verk Jacksons Pollocks og annarra abstrakt expressjónista. Hvað hyggst Erling fyrir nú? Er hann að gera tilkall til ákveðins tímabils í listasögunni, eins og hann hefur gert áður? Eða er hér e.t.v. um einlægari nálgun að ræða? Þessum og fleiri spurningum mun ég leitast við að svara.

Erling er afar meðvitaður um útlit verkanna og hinar óhjákvæmilegu tilvísanir sem það vekur. Hins vegar er í raun seilst lengra en ætla mætti í fyrstu. Í stað þess að notast við hin hefðbundnu verkfæri málaralistarinnar, bursta, spaða og annað í þeim dúr, notar hann mótorhjól til að mála málverkin með því að setja málningarbakka undir aftara hjólið áður en hann snýr bensíngjöfinni og leysir úr læðingi hin hráu hestöfl hjólsins. Samhliða þessum verkum eru önnur sköpuð með ýmsum tilbrigðum við stef hinnar óduldu karlmennskuklisju, meðal annars með því að keyra hjólið í gegnum málningarpolla og yfir pappír og striga í nokkurs konar dekkjaþrykkiverkum. Í áframhaldandi áhlaupi var reykspólað á gallerígólfinu og á átta viðarplötum og flett þannig ofan af gömlum málningarlögum. Í öllum ofangreindum verkum er sköpunarferlið afhjúpað í heimildarmyndböndum sem sýna listamanninn að verki. Hin endanlega uppljóstrun felst síðan í uppstillingu verkfæranna, mótorhjólanna, í sýningarrýminu.

Ekki skyldi gleyma 420 mótorhjólaportrettum, ljósmyndum af kyrrstæðum mótorhjólum á götum borga sem hafa legið í leið listamannsins – Reykjavík, Berlín, New York og London. Þau eru mynduð án ökumanna sinna, kunnuglegar táknmyndir samfélagsstöðu og þrár. Þær eru listamanninum sömuleiðis vel kunnar – táknmyndir valdastöðu almennt en ekki síður mótorhjólin sem slík. Hann á einmitt nokkur sjálfur og vill miðla þeirri vitneskju. Akstur mótorhjóla hefur verið áhugamál Erlings um árabil og því vill hann gjarnan miðla líka. Mér er óhjákvæmilegt að spyrja hvort ásetningur hans sé að veifa framan í okkur lífsstíl sínum og ávexti ævistarfsins. Svo kann að vera en ég trúi því að í gjörningnum felist einlægari ásetningur. Auk stöðu og þrár, er mótorhjólið táknmynd frelsis og flótta. Erling hefur árum saman gefið ótæpilega af sér í nafni hugsjóna sinna og við höfum fylgt honum fúslega eftir. Á þeirri vegferð hefur hann eignast einlæga aðdáendur, hlotið viðurkenningu víða og uppfyllt væntingar okkar aftur og aftur. Velgengnin hefur ekki verið átakalaus því að eins og hann segir sjálfur ‘er erfitt að vera listamaður í líkama rokkstjörnu.’ Sýningin er áleitin tilraun Erlings til undankomu, undan væntingum okkar til verka hans og til hans sem listamanns.
Augljóslega hefur hann skilið okkur eftir í rykinu.


David Diviney 2012.
(íslensk þýðing: Hanna Styrmisdóttir)

Útvarpsviðtal:
http://www.ruv.is/frett/ras-1/spolverk-unnin-med-harley-davidson




Kling & Bang gallerí
Hverfisgata 42
IS-101 Reykjavik

Opið fimmtudaga-sunnudaga frá kl.14-18
 
 
1henrike_mueller_36 prepx 2henrike_mueller_125 3henrike_mueller_77 4henrike_mueller_126 6henrike_mueller_49 7henike_mueller_45 8henrike_mueller_08 prep1 prep2 prep3 prep4 prepsplash 1_spol 2_spol 3_spol 4_spol 5_spol 6_spol 7_spol 8_spol 9_spol 10_spol 11_spol 12_spol spolhorn1 spolhorn2 1syning 2syning 3syning 4syning 5syning 6syning 7syning 8syning 9syning 10syning 11syning 12syning 13syning 14syning 15syning 16syning 17syning 18syning 19syning 20syning 21syning 22syning 23syning 24syning 25syning 26syning 27syning 28syning 29syning
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is