posternota
útgáfusýning
Heyr á Endemi
07. 05. 2011 - 15. 05. 2011
 
Laugardaginn 7. maí verður mikið um að vera í Kling og Bang gallerí á Hverfisgötunni. Þar verður sýningin Heyr á endemi opnuð auk þess sem bókabúðin Útúrdúr opnar nýja verslun í húsnæði gallerísins.

Sýningin Heyr á Endemi er sett upp í tilefni af útgáfu fyrsta tölublaðs Endemis sem er nýtt tímarit um samtímalist íslenskra kvenna. Markmið tímaritsins er að skapa vettvang fyrir list nútímakvenna, brúa bilið milli almennings og myndlistar og rýna í kynjaójafnvægi í lista- og menningarumfjöllun á Íslandi í dag. Endemi er enn fremur gallerí eða sýningarrými því í hverju tölublaði verða sýnd verk eftir íslenskar myndlistarkonur.

Á útgáfusýningunni í Kling og Bang eru verk nokkurra þeirra myndlistarkvenna sem fjallað er um eða eiga verk í fyrsta tölublaði Endemis.
Þær eru: Anna Hrund Másdóttir, Arna Óttarsdóttir, Katrín I. J. H. Hirt, Guðrún Benónýsdóttir, Ráðhildur Ingadóttir, Kristín Rúnarsdóttir, Rakel Jónsdóttir, Hugsteypan (Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir), Ólöf Nordal og Þorgerður Ólafsdóttir.

Tímaritið verður kynnt og selt á sýningunni en það verður einnig selt í áskrift og í helstu bókabúðum.
Og það verður meira um að vera í Kling og Bang á laugardaginn því bókabúðin Útúrdúr hefur flutt inn í húsnæði gallerísins eftir að hafa verið húsnæðislaus í nokkra mánuði. Útúrdúr er verslun og bókverkaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu og sölu á myndlistartengdu efni.

Sýningin Heyr á Endemi verður opnuð klukkan 17 á laugardag og Útúrdúr opnar dyr sínar á sama tíma.

Athugið að sýningin verður aðeins uppi í rúma viku eða til 15. maí. Opið alla daga frá kl.14 til 18.

Meira um Endemi hér: www.endemi.wordpress.com
 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is