kling2_blom2020
Anne Carson, Halla Birgisdóttir, Margrét Dúadóttir Landmark og Ragnar Kjartansson
Dýpsta sæla og sorgin þunga / Tears
21. 01. 2021 - 14. 03. 2021
 
Það gleður okkur að tilkynna opnun nýrrar og spennandi samsýningar í Kling & Bang þar sem fjórir ólíkir listamenn sýna ný verk undir yfirskrift fenginni að láni úr ljóði Ólafar frá Hlöðum. Öll vinna þau með myndgervingu stórra tilfinninga í verkum sínum.

Tárin

Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga
tárin eru beggja orð.

Ólöf frá Hlöðum (1857-1933)

Af sóttvarnarástæðum verður ekki eiginleg opnun, en sýningin verður opin frá kl. 14-18 fimmtudaginn 21. janúar og á hefðbundnum opnunartímum þaðan í frá. Fyrirhugað er að hafa opið frá kl. 12-24 laugardaginn 6. febrúar og gefst stórhuga áhorfendum þá kostur á að sjá verk Ragnars í heild sinni.

 
Um listamennina

Myndskáldið Halla Birgisdóttir (f. 1988) hefur getið sér gott orð fyrir blýantsteikningar sínar og titlana sem saman mynda órjúfanlega heild. Mannlegar tilfinningar, hugsanir og hugmyndir setur hún undir skýrt ljós. Hún sýnir nú fjölda nýrra verka í sama stíl, sem þó er í stöðugri þróun. Verkin á þessari sýningu takast mörg hver á við það hvernig við gerum okkur skiljanleg hvert við annað og hvernig orðin snúast manna í millum. Hún hefur einnig gert nýja rýmisinnsetningu með teikningum beint á veggi Kling & Bang.


Ragnar Kjartansson (f. 1976) frumsýnir nýtt myndbandsverk, Sæla þar sem hann ásamt hópi óperusöngvara og hljóðfæraleikara endurflytur stöðugt síðustu aríuna úr Brúðkaupi Figaros eftir Mozart í 12 klst. Í þessari þriggja mínútna undurfögru aríu er fyrirgefninginn í stöðugu uppgjöri við ofbeldi og fals. Verkið var tekið upp í REDCAT, Los Angeles á Fluxus Festival LA Phil vorið 2019. Með aðalhlutverkin fóru Kristján Jóhannson og Laurel Irene.

Einnig sýnir Ragnar nýtt málverk þar sem goðmögnin Eros og Venus eru í aðalhlutverki.


Margrét Dúadóttir Landmark (f. 1996) útskrifaðist úr myndlistardeild LHÍ fyrir tæpu ári síðan og hefur vakið athygli fyrir afgerandi verk sem snúa upp á skynjun áhorfandans. Verkin eru húmorísk og stundum jafnvel ótrúleg, jafnframt er einhver undirliggjandi angurværð og upgjöf sem er nánast líkamleg. Galdrabrögð og aðferðir leikhússins eru leiðir sem hún notar til að afbyggja og blekkja í senn. Hún sýnir nýja skúlptúra sem hún vann sérstaklega fyrir sýninguna.


Anne Carson (f. 1950) er víðfrægt skáld, grískuprófessor og fornfræðingur sem ekki hefur gert mikið af því að sýna myndlist, en hefur þó sinnt listinni alla tíð. Hún hefur reyndar látið þau orð falla að hana hafi alltaf langað til að vera myndlistarmaður en svo leiðst út í skrifin. Teikningarnar sem hún sýnir á sýningunni eru tilbrigði við tvö stef, ímynduð fjöll sem hún hefur unnið endurtekið með svo úr verða myndirnar sem hér má sjá.

Sýningunni fylgir glæsilegt bókverk með nýjum skrifum eftir Anne Carson og myndum af verkum allra listamannanna.

„Fjallið rís í fjarskanum. Svart og ljótt eins og hótel.“

________

Kling & Bang
Marshallhúsið
Grandagarður 20
101 Reykjavík
Ísland

Opnunartímar
Mið til sun 12 – 18
fim 12 – 21
lokað á mánudögum/þriðjudögum

Aðgangur ókeypis

Kling & Bang works in collaboration with Thyssen-Bornemisza Art Contemporary, Vienna and The City of Reykjavík
 
1bliss_1stpass__1.37.1 halla1 klinganne01
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is