poster_feigdar_fb_minni
Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir, Steinunn Önnudóttir
feigðarós — dreamfields
22. 05. 2021 - 04. 07. 2021
 
Stundum glittir í hvaða mann einhver hefur að geyma í gegnum myndlistina, hefðbundin kynni eru kannski lítil sem engin en út frá verkunum skynjar maður skyldleika. Yfirleitt lætur maður þar við sitja og vonar kannski að einhvern daginn fáist tækifæri til að sitja í verkum sínum hlið við hlið á samsýningu. En það er líka hægt að taka þetta fræ og sjá hvað af því vex.

Stundum er bara ógeðslega næs að gera myndlist saman. Kasta einhverju út, athuga viðbrögðin, fikra sig áfram og finna einhverju form. Kannski finnst mér eitthvað vonlaust en í því sérð þú eitthvað sem er þess virði að vinna með. Ég leyfi þér að klára það sem ég byrjaði á, og tek við af þér þegar þú færð nóg. Saman opnum við fyrir nýja möguleika og í gegnum hreinskiptin samtöl fetum við saman veginn. Í samstarfinu finnum við frelsi til að prófa nýjar aðferðir og efni. Tækifæri gefast til að víkka sjóndeildarhringinn, læra hver af annarri, deila ábyrgð, læra að gefa pláss og taka pláss, taka af skarið og að láta leiða sig. Læra að treysta ferðinni og að leyfa hlutum að hvíla þegar þeir þurfa meiri tíma. Læra að passa upp á móralinn, huga að líðan annarra og gefa öllum pláss til að skína.

Eins og með svo margt annað þá er myndlistin ekki einungis áfangastaður, hún er ferðalagið, ferlið, og ekki endilega gerð til þess að hrífa eða slá útaf laginu, heldur til að deila einhverju sem ekki er gott að koma í orð. Viðhorfi, undrun, gleði, viðbjóði, hryggð, forvitni — sýn sem engum er ljós fyrr en hún kemur saman, og sem að hefði aldrei orðið á einmitt þennan veg ef einhverju hefði hnikað á leiðinni. Hún hefði orðið önnur og engu betri eða verri, og þó þær ótal breytur líti aldrei dagsins ljós þá er ekkert sem tapast.
__________________________________

feigðarós — dreamfields er ekki hefðbundin samsýning heldur sameiginlegt verk okkar þriggja ­— sýning þar sem höfundareinkenni okkar fléttast saman og ummyndast er við skyggnumst inn í vinnuaðferðir og hugarheima hverrar annarrar, og leyfum tilraunagleði og slembilukku að leiða okkur áfram.

Innsetningin samanstendur af skúlptúrum sem minna á landslag. Þeir umlykja áhorfandann og draga upp umhverfi sem er á mörkum þess manngerða og þess náttúru­lega. Lykilþættir í viðfangi og efnisgerð verkanna eru samband manngerðra efna og náttúru, samþætting og sundrun.

Samhliða sýningunni kemur út bókverk sem er hluti þess umlykjandi heims sem innsetningin skapar. Í því ­getur að líta ljósmyndaverk sem unnin eru í aðdraganda sýning­arinnar þar sem efnistilraunir eru settar í óvænt samhengi. Hluta þessara ljósmyndaverka má einnig sjá á sýningunni. Í bókverkinu eru jafnframt ný textaverk sem tengjast efni sýningarinnar á eigin forsendum, verk eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Gunnar Theodór Eggertsson og Tyrfing Tyrfingsson.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Starfslaunasjóði listamanna.
Útgáfa bókverksins er styrkt af Myndlistarsjóði og Myndstefi.
 
Anna Hrund Másdóttir lauk BS námi í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2006 og BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2010. Árið 2012 var hún nemi í listamannarekna skólanum The Mountain School of Arts í Los Angeles og útskrifaðist 2016 með MFA gráðu við California Institute of the Arts.
Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Kling&Bang, Gerðarsafni, Listasafni Árnesinga, Nýlistasafninu, Harbinger, Kunstschlager og Listamenn Gallerí.

Ragnheiður Káradóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og lauk meistaranámi í myndlist vorið 2016 frá School of Visual Arts í New York. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis og ber helst að nefna einkasýningarnar Utan svæðis í Harbinger og míní-míní múltíversa í Listasafni Reykjavíkur. Ragnheiður er einnig annar helmingur listatvíeykisins Lounge Corp., sem miðar að því að sýna myndlist í óhefðbundnum rýmum.

Steinunn Önnudóttir lauk BA námi í grafískri hönnun við Gerrit Rietveld Academie árið 2009, og BA námi í myndlist (Audiovisuel) árið 2011, einnig við GRA. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis. Helstu sýningar eru Non Plus Ultra í D-sal Listasafns Reykjavíkur, Skúlptúr Skúlptúr í Gerðarsafni, og Fallvelti Heimsins, á vegum Myndhöggvarafélagsins. Frá árinu 2014 hefur Steinunn rekið sýningarýmið Harbinger og hún er jafnframt hluti af útgáfusamstarfinu in volumes sem einbeitir sér að útgáfu bókverka.
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is