|
|
|
Pussy Riot |
VELVET TERRORISM - Pussy Riot´s Russia |
24. 11. 2022 - 29. 01. 2023 |
|
Flauelshryðjuverk – Rússland Pussy Riot
Opnun 24. nóvember 2022 kl. 17-21
Kling & Bang kynnir fyrstu yfirlitssýningu sem gerð hefur verið á pólitískum mótmælagjörningum femínsta listahópsins Pussy Riot í Rússlandi.
Þegar Pussy Riot framdi gjörning sinn "Pönkbæn: María Mey, hrektu Pútín á brott" í kirkju Krists í Moskvu árið 2012 kallaði andlegur ráðgjafi Pútíns, Tikhon Shevkunov biskup, það „flauelshryðjuverk“.
Á sýningunni verða gjörningar þeirra sem við þekkjum úr heimsfréttunum, auk fjölda lítið þekktra gjörninga sem þær hafa framið jafnt og þétt í Rússlandi og nágrenni undanfarinn áratug, og nýtt myndbandsverk sem tekið var upp í Reykjavík. Verkin spretta af brýnni þörf til að gera listræna uppreisn gegn kaldranalegu alræði.
Sýningin í Kling & Bang er gerð með Mariu (Möshu) Alyokhina, lykilmeðlim í Pussy Riot, og gefur þar að líta skrásetningar af gjörningum aðgerðasinnanna frá upphafi hreyfingarinnar árið 2011 til dagsins í dag. Gjörningarnir eru sýndir í samhengi – aðdragandi, gjörningur, viðbrögð – og varpa þannig ljósi á kúgun og hörku einræðisins sem hefur stigmagnast í Rússlandi síðustu tíu árin.
Á sýningunni býðst gestum að þræða sig milli skærugjörninga hópsins og kynnast hinum alvarlegu afleiðingum sem þeir hafa gjarnan í för með sér. Þar að auki opnum við dyr að heimi stöðugs lögreglueftirlits, falsfrétta, sakamála gegn Möshu og Lucy Stein, unnustu hennar og félaga í Pussy Riot, fyrir stríðið og meðan á því hefur staðið, og bjóðum áhorfendum að kynnast lítillega alræðisgryfjunni sem Rússland hefur fallið í undir stjórn Pútíns, áratuginn áður en hann réðst inn í Úkraínu af fullum krafti. Á sýningunni má einnig sjá nýlega gjörninga þeirra, veggjakrot og tónlistarmyndband gegn stríðinu.
Hin pólitíska list Pussy Riot er einhver sú magnaðasta sinnar tegundar á 21. öldinni – feminísk LGBTQ+ gjörningalist sem gerð er í óviljandi samstarfi við rússneska ríkið sem færist sífellt nær því að verða sannkallað alræðisríki. Þannig verða gjörðir ríkisins að þáttum í verkum Pussy Riot. Hvort sem um ræðir fangelsanir, eiturbyrlanir, svipuhögg, ökklabönd eða útlegð nær Pussy Riot alltaf að snúa ofbeldisfullum gjörðum ríkisins upp í efnivið í listaverk sín, og raska þannig valdajafnvæginu.
Í bók Möshu Riot Days frá árinu 2017– en bókin er pönk yfirlýsing um frelsi og val, sem skrifuð er um reynslu hennar af því að fremja Pönkbænina og tveggja ára dóminn sem hún sat af sér í vinnubúðum í fanganýlendu í Úralfjöllum í kjölfarið – lýsir hún skyndimótmælum sem hún gerði með samfanga sínum og kemst að þeirri niðurstöðu að „svona eigi mótmæli að vera – örvæntingarfull, skyndileg, glaðvær.“ Sýningin í Kling & Bang reynir að miðla þeim anda en varpa um leið ljósi á þá hörmulegu þróun sem átt hefur sér stað í Rússlandi og afleiðingar hennar, nú þegar flest okkar klóra sér í kollinum að reyna að skilja hvað í ósköpunum sé í gangi í Rússlandi Pútíns í gegnum heimsfréttir um yfirvofandi (eða nýhafna) heimsstyrjöld.
Í síðustu viku réðust að því er virðist hakkarar hliðhollir Pútin á vefsíðu Kling & Bang, tóku tímabundið yfir stjórnstöð hennar og skildu þar eftir subbuleg níðskilaboð um Úkraínu á forsíðunni.
Pussy Riot er um þessar mundir á tónleikaferðalagi um Evrópu með sviðsverk sitt Riot Days. Á ferð sinni safna þær fjármunum til að styðja við Úkraínu og leitast við að auka meðvitund um mikilvægi viðskiptabanns á rússneskt eldsneyti og gas.
Flauelshryðjuverk – Rússland Pussy Riot er í sýningarstjórn Dorothee Kirch, Ingibjargar Sigurjónsdóttur og Ragnars Kjartanssonar. Á sýningunni verður einnig sýnt nýtt verk sem tekið var upp í Reykjavík. Kvöldið eftir opnun sýningarinnar mun Pussy Riot flytja sviðsverk sitt, Riot Days, í Þjóðleikhúsinu. Hagnaður af tónleikunum og sýningunni rennur til Úkraínu.
Opnunin stendur yfir kl. 17-21 þann 24. Nóvember. Sýningin stendur til 29. janúar.
|
|
Sýningin er í samstarfi við TBA21 Thyssen-Bornemisza Art Contemporary.
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.
Kling & Bang er styrkt af Reykjavíkurborg.
Kling & Bang er opið mið-sun kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis.
Kling & Bang
Marshallhúsið
Grandagarður 20
101 Reykjavík |
|
|
|
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík
kob@this.is |