solbjort_tumi
Sólbjört Vera Ómarsdóttir / Hrafnkell Tumi Georgsson
misskilningur í skipulagsmálum / Loftlína
22. 02. 2025 - 30. 03. 2025
 
Verið hjartanlega velkomin á opnanir tveggja einkasýninga í Kling & Bang laugardaginn þann 22. febrúar klukkan 17.00. Annarsvegar opnar 'misskilningur í skipulagsmálum' með verkum Sólbjartar Veru Ómarsdóttur og hinsvegar 'Loftlína' með verkum Hrafnkels Tuma Georgssonar.
-
Sólbjört Vera Ómarsdóttir
misskilningur í skipulagsmálum
Á sýningunni 'misskilningur í skipulagsmálum' sýnir Sólbjört ný verk sem unnin hafa verið síðastliðið ár. Á sýningunni er tekist á við þau átök sem verða við stórar breytingar. Verk sýningarinnar eru tilvísanir í þær sögur sem verða til innan veggja heimilisins og þær tilfinningalegu áskoranir sem speglast í tíðarandanum. Sjónarspil sem endurtekningar hversdagslífsins mynda í víðfemum efnistökum tilverunnar er rannsakað í snertingu við dauða hluti sem og þær tilfæringar sem dauðir hlutir krefjast af einni manneskju. Efnistök sýningarinnar má rekja til hvatvísi í handverki sem gjarnan fylgir skoplegum uppákomum daglegs lífs.
Sólbjört Vera Ómarsdóttir (f.1993) er sjálfstætt starfandi listamaður og meðlimur í stjórn listamannarekna rýmisins Kling & Bang síðan árið 2020. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum eins og D- Vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Rúllandi Snjóbolti á Djúpavogi og Löng helgi í Reykjavík, Borgarnesi og Hvolsvelli. Með verkum sínum gerir Sólbjört atlögu að því að undirstrika spaugileg þemu í hversdagslegri angurværð og vinnur oftast í miðla eins og skúlptúr og vídjó.
-
Hrafnkell Tumi Georgsson
Loftlína
Á sýningunni 'Loftlína' frumsýnir Hrafnkell Tumi skúlptúra og vídeóverk. Margrása vídeóverk sem fylgist með atburðarás sem átti sér stað samtímis á mismunandi fjallstindum á Suðurlandi við sólsetur. Verkin voru unnin á undanförnu ári og fjalla um samskipti og landslag í rými og tíma. Í verkum sínum skoðar Hrafnkell oft eðlisfræðileg fyrirbæri sem hafa áhrif á daglegt líf okkar og notar einfaldar tæknilausnir til þess—lausnir sem reynast svo oft flóknar í framkvæmd. Verkin á sýningunni kanna mismunandi fasa skynjunar sem við skiptumst á að nota daglega, sem og þær aðferðir sem við beitum til að ná utan um og skrásetja umheiminn.
Hrafnkell Tumi Georgsson (f. 1999) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Hann vinnur helst með skúlptúr og vídeó og starfar við kvikmyndun samhliða listinni. Hrafnkell hefur sýnt verk á Vetrarhátíð Reykjavíkur 2023, List í Ljósi á Seyðisfirði 2023 og It Plays Hard í Norræna húsinu 2024. Þetta er hans fyrsta einkasýning. Hrafnkell situr í fagráði Sequences.
-
Frítt inn. Öll velkomin
Grandagarður 20
-
Hönnun: Þórhallur Runólfsson
Sýningin er styrk af Myndlistasjóð, Reykjavíkurborg, Myndstef.
 
 
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is