vefpostpalli
Páll Banine
Biðjandinn á Þröskuldinum - Prayerer on the Threshold
11. 08. 2007 - 02. 09. 2007
 
Opnun laugardaginn 11.ágúst klukkan 17.

List umbreytingarinnar -
Herbergjaskipan sálarlífsins.


Fyrsti klefi er á götuhæð. Gengið er inn úr dagsbirtu þessa heims. Gengið að grafískum íkonum hangandi á vegg. Hluti af skrásetningu staðreynda - spegilmynda úr lífi biðjandans sem er munkurinn á vinnustofunni. Hann fæst við að dulkóða þessar myndir úr lífi sínu. Tilvísun í framtíðina að því leyti að margar myndir eru enn ógerðar en svo sannarlega mögulegar. - Tilgangurinn er jarðbinding fyrir öryggi og sjálfstraust. Að ná hugrekki til áframhaldandi ferðalags.

Annar klefi er innar og aðeins neðar en samt á jarðhæð - Kvikmynd/ hljóðverk - tímatengt verk um ferðalag nornarinnar niður í djúp hafsins. Nornin, móðir biðjandans heldur niður í djúpin við Faxaflóa, lítur við í lóni í Belgíu og endar fyrsta kaflann á strönd Nýja-Sjálands. Það sést að gamla nornin þarf að hafa fyrir þessari kortlagningu. Tilgangurinn er undirbúningur fyrir ferðalagið niður fyrir hafsbotn. Niður fyrir botninn - inn í kjarnann!

Opið eða þröskuldurinn sem beðið er við - leiðin niður í kjallarann undir hafinu - tekur þig úr vökuvitund niður í undirmeðvitund þriðja og fjórða klefa þar sem hrædýrið bíður við hliðið og ver fyrir biðjandanum sem ætlar sér niður fyrir. Það er sagt geta verið ógeðslegt í alla staði, ógnandi. Hindri biðjandann að komist áfram og inn á hin óþekktu svið. Það getur verið í ýmsum myndum. Ein tegundin er að nokkru leyti í mannsmynd, en að öðru leyti í dýrslíki. Það er til með mannshöfuð sem þó er á margan veg dýrslegt. Ennið lágt og eyrun teygjast upp eins og á hýenu. Augun eru stór og útstæð og virðast loga af einhverri innri glóð grimmdar og geðofsa. Munnurinn er stórt gin með rándýrstönnum. Hendurnar eru stórar krumlur með klóm og neðri hluti líkamans er í drekalíki. Ættað frá Satúrnus!

Þriðji klefi er niðrí kjallari og opnast þegar framhjá verðinum er komist. Staður athafna. Þegar inn er komið er gengið í eldhúsið eða fabrikkuna stað umbreytinganna Verndin er hjúpurinn - vaxið. Vaxið lekur niður og það er freistandi fyrir biðjandann að stinga puttanum í það og finna hvernig hann dofnar og það er líkt og biðjandinn fái utan á sig ham. Aukalag sem ver fingurinn en deyfir líka tilfinninguna. Eins og að missa tilfinningu... en hún skýrist á sama tíma og verður mettuð ...einangrast með henni. Hún fer innávið en brýst ekki út... Vaxið er heitt en kólnar þegar það kemst í snertingu við puttan og þá er hægt að bæta við einu lagi í viðbót og svo koll af kolli þangað til öll tilfinning fer úr puttanum. Lögin verða mörg og öll tilfinning fer. Eldhúsið verður að altari.

Það sjást dýramyndir - erkitýpur hellamálverksins - neðsti hellirinn í draumi Jungs. Hér eru andar asnans, hérans, geitarinar, og kindarinar. Allt evrópskar hógværar skepnur en asninn þver og þrjóskur, hérinn snöggur og frjósamur, geitin díabólískar hvatir og kenndir og kindin heimsk. Þessi öfl eru ekki í sjálfu sér ill þó að oft sé það látið heita svo. Hollast er að líta áhrif þeirra sem óhjákvæmilegar tilraunir og prófraunir. Já, nauðsynlegan andstæðing til þess að knýja fram krafta vora og hæfileika til áframhaldandi dáða, hrista af oss allan andlegan svefn. Vakna til lífsins til edurfæðingar fjórða klefans.

Fjórði klefi er innsti kjallari - Altarið verður að kistu þaðan sem ljósið sleppur út. Kistu sem er hýsill fyrir innra ljósið, hina undursamlegu uppljómun hina dýrðlegu útópíu. oasis, shangri la, omdúrmans! Heilbrigð sál þarf ekki á þessari heimspeki að halda. Sannleikurinn er bísna einfaldur þegar búið er að reyta af honum fjaðrirnar. Ljósið er við endann á ganginum. Eða handan veggsins.

goddur/unnar


Kling & Bang gallerí er opið fimmtudaga-sunnudaga frá klukkan 14-18. kob@this.is
 
 
pallivef1 pallivef2 pallivef3
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is