|
|
|
Heimir Björgúlfsson |
Alca torda vs.rest |
08. 01. 2005 - 30. 01. 2005 |
|
Opnun laugardaginn 8.janúar 2005 klukkan 18.00
Margir eru á því að hann Heimir okkar Björgúlfsson hafi teflt á tæpasta
vað, líkt og Fischer og Spassky hér um árið, þegar hann yfirgaf Stilluppsteypu fyrir Ryksugudrengina (The Vacuum Boys) og hófst handa við að sjúga með þeim botninn í sýki ástarinnar
(Amsterdam). Þeir sömu átta sig kannski ekki á að þrátt fyrir að hann Heimir okkar Björgúlfsson sé kannski svolítið kynlegur kvistur, þá er hann enginn furðufugl, þótt hann missi kannski flugið af og til.
Því hefur verið haldið fram að hann Heimir okkar sé hugsanlega fórnarlamb þeirrar hugmyndar að allir listamenn séu kynlegir kvistir og furðufuglar í senn, en hann Heimir Björgúlfsson lætur slíkar
hugmyndir ekki skjóta sig niður úr skýjunum, enda má um slíkar fullyrðingar segja að þær dæmi sig sjálfar dauðar og ómerkar og eru í raun lítið annað en
vængjasláttur í þakrennu.
Heimir okkar er fjölhæfur fýr og mikill vinur listarinnar. Það nægir honum hins vegar engan veginn að svamla í þeim ólgusjó sem hans tilraunakenndi raftónlistarheimur er, heldur hefur hann ekki látið sig muna um að stinga sér jafnframt til sunds í öðrum heimi; í því
kviksyndi sem við þekkjum flest í daglegu tali sem myndlist. Heimir lærði að sökkva sér í þetta heljarinnar kviksyndi
myndlistarinnar meðal Hollendinga. Hollenska þjóðin hefur alltaf verið mikil siglingaþjóð jafnframt því að vera sú þjóð sem gefið hefur heiminum suma af bestu listamönnum sem stigið hafa fæti sínum á þurrt land. Og ekki má gleyma því að með elju sinni umbreytti hollenska þjóðin
móðurjörðinni úr kviksyndi í fast land, þ.e. sigraðist á náttúrunni. Það leynir sér ekki fyrir hvern þann sem lesið hefur sína listasögu (og reyndar mannkynssöguna alla) að Heimir er góður nemandi
Hollensku meistarana og það er sko ekkert smáræði sem hann þambar af
þessum hollenska bjór þeirra sem kallaður er Heineken.
Svo er það auðvitað ykkar listunnenda að dæma hvort unginn (Heimir) sé orðinn fleygur og þar með tilbúinn til að yfirgefa hreiðrið (Holland) svo við sem á skerinu búum fáum notið hans krafta, eða hvort menn segi sem svo: “Þetta er ekki íslenskur fugl, þetta er Hollendingurinn fljúgandi; draugaskip sem á ekkert erindi hingað. Margir hafa nefnilega ekki gleymt því að það voru Hollendingar sem voru potturinn og pannan í Tyrkjaráninu svokallaða. Hinir sömu eru nokkuð
ánægðir með að Hollendingurinn virðast eiga í stökustu vandræðum með að hemja
múslimana sína. Við vonum bara að Hollendingurinn rugli Heimi ekki saman
við einhvern ólátabelg þar sem hann ráfar um sýkin í einhverju æði. Víst er að bláu augun og ljósu lokkarnir koma upp um okkar mann en Hollendingur verður hann aldrei, enda losnar Íslendingurinn aldrei við heimþráð sinn þó hann tali lýtalaust tungumál innfæddra (samanber Ólaf
Elíasson). Þetta skilur Hollendingurinn sem lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum. Barbarar hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá hinum siðmenntaða heimi, nema sem ódýrt vinnuafl. Það er ekki síst tengsl Heimis við náttúruna sem heillað hefur Hollensku þjóðina upp úr skónum og
fengið hana til að sjá að peningar eru ekki allt. Heimþráður Heimis skilar sér ekki bara í ómagatárum listamannsins heldur einnig í þeim fallegu verkum sem hann málar með þeim. Við þekkjum öll gárungann Heimi, þann sem ásamt óhljóðasveitinni Stilluppsteypu (betur þekktir sem \\\"the crazy guys\\\") gaf okkur nýja sýn á hljóð og óhljóð, en mörg okkar eru sjálfsagt hvorki fugl né fiskur
gagnvart þessum nýja Heimi, sem hóf sig til flugs með svo eftirminnilegum hætti í Gallerí Hlemmi um árið og svo á nýjum forsendum ári síðar á Nýlistasafninu. Þar var nú mörg fjaran sopin, enda ekki á hverjum degi sem landinn fær strákinn sinn til að endurnýja gömul kynni af landi og þjóð. En hvað sem hver segir, eða þorir ekki að segja um hann Heimi okkar, þá er allavega hægt að segja að það sé kraftur í kallinum og mikið fagnaðarefni að fá
strákinn heim. Þó svo að hann fari kannski fljótt aftur eins og við má búast af farfuglum almennt. Við fáum allavega að
baða okkur í dúninum; njóta ávaxtanna. Það minnsta sem við getum gert fyrir okkar mann er að skoða hvað hann hefur uppá að bjóða með opnum hug og reyna hreinlega að afsanna kenninguna um að enginn sé spámaður í eigin landi. Það þýðir heldur ekkert að sökkva sér í sorg og sút þótt Geirfuglinn hafi dáið út. Við höfum í það minnsta Álkuna sem er að mörgu leiti betri úr garði gerð fyrir íslenskar aðstæður. Hér á landi er
ófleygum fuglum einfaldlega útrýmt og Heimir má bara vera ánægður með litlu stubbana sína.
Upp með fót og fit! Gæfan fylgi þér, Heimir Björgúlfsson!
-Aggi Egga, Lillehammer 24 desember 2004
|
|
Kling & Bang gallerí
opið fimmtudaga til sunnudaga frá klukkan 14-18. allir velkomnir |
|
|
|
|
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík
kob@this.is |