korona
Anna Hrund-Ingibjörg -Lilja - Selma -Þórgunnur - Katla - Raggi
MARGLAGA - skynjunarskóli
26. 02. 2011 - 20. 03. 2011
 
MARGLAGA - skynjunarskóli

Opnun laugardaginn 26.febrúar kl.17

Flestir eru sammála um mikilvægi þess að læra, vita, kunna og skilja. Við fyllum höfuðið af dásamlegum fróðleik, misáhugaverðum staðreyndum og alls kyns þekkingu. En hvað um restina af búknum? Hvernig eigum við að takast á við brjóstið sem kitlar, magann sem ólgar og brisið sem titrar? Að finna, nema, treysta og skynja verður einhvern veginn stundum út undan.  Enda er svo agalega erfitt að mæla það – ekkert eitt rétt svar, enginn viðurkenndur kvarði. Bara einhver óskilgreind tilfinning. Sem er samt kannski það eina sem við gætum mögulega öll fundið, óháð utanaðkomandi þáttum – einhver mennska.

Kannski er það þaðan, úr þessum ólgandi iðrum, sem við getum fundið til og skynjað fegurð, ótta, ást og kvíða. Kannski er það líka þar sem best er að finna listina – að leyfa henni að læðast upp hrygginn, hríslast um herðarnar og æða svo beint ofan í magann. Þar getur hún hreiðrað um sig og sent strauma aftur í hnakka og niður í iljarnar. Og kannski spýst aftur út og inn í annan búk.

En það er ekki auðvelt og sjálfsagt að finna til. Ósköp víða er skilningurinn meira metinn en skynjunin og mörg kerfi í samfélagi okkar bæla innsæið og tilfinninguna nánast markvisst niður – það þykir einhvern veginn ekkert sérlega gáfulegt að lifa eftir innsæinu og magaólgunni. Sem sannast kannski í því hversu mikið er litið niður á svokölluð tilfinningarök.

Þann 26. febrúar 2011 opnuðu nokkrir listamenn sýningu í Kling og Bang gallerí sem freistar þess að skoða skynjunina og innsæið umfram skilninginn. Stofnaður hefur verið skynjunarskóli sem starfar meðan sýningin stendur yfir eða til 20. mars.

Dagskrá skynjunarskólans er eftirfarandi:


1. MARS - 20:00
Guðlaugur Kristinn Óttarsson
(Öreindafræðingur / Draugabani) Margir telja að rafvæðing á 20. öld og netvæðing á 21. öld hafi kveðið niður alla drauga. Því fer fjarri eins og gestir munu komast að með fyrirlestri og vinnustofu GKO og aðstoðarmanna hans.

3. MARS - 20:00
Haraldur Jónsson
(Myndlistarmaður) leiðir skynæfingar. Þátttakendur eru vinsamlega beðnir um að mæta í þægilegum klæðnaði og án hvers kyns andlitsfarða eða ilmvökva á líkamanum.

5. MARS - 15:00
Goddur
(Shaman / Seiðskratti) Fjallar um svitahofið sem innsæiseflingu og leið til að komast á annað stig skynjunar.

6. MARS - 15:00
Hildigunnur Birgisdóttir
(Myndlistarmaður) -samhengi hlutana-

8. MARS - 20:00
Alma Dís Kristinsdóttir
(Hönnuður / Menntunarfræðingur) stýrir SAMTALI og SMAKKI um skynbragð og skoðun á list. Einskonar smakk í því að nálgast list með því að tala við listaverk og læra að taka eftir og bera skynbragð á eigin upplifun í því samtali.

10. MARS - 20:00
Eygló Harðardóttir
(Myndlistarmaður) AUTT BLAÐ

12. MARS - 15:00
Ásgrímur Már Friðriksson
(Fatahönnuður) Litatilraunir

13. MARS - 15:00
Margrét Blöndal
(Myndlistarmaður) Fær til sín síðdegisgesti í sýningarsal.

15. MARS - 20:00
Kviss Búmm Bang

(Framandverkaflokkur) Fjallar um hlustun sem vinnutæki.
17. MARS - 16:00
Katrín I. J. H. Hirt
(Myndlistarmaður) Fjallar um viðhorf listamanna til þess að útskýra listaverk sín.

17. MARS - 20:00
Skynjunarleikhúsið
(Tónlistarmenn/myndlistarmenn) Skynjunarleikhúsið býður í allsherjar skynjunartreat. Takmarkaður aðgangur.

Skipulagðir viðburðir fara fram á kvöldin og um helgar en sýningin er auk þess opin alla daga nema mánudaga frá klukkan 14 til 18. Þá er góður tími til að líta við og njóta þess að vera. Fá sér kaffibolla, spjalla um lífið og listina og melta. Þá má líka glugga í bækurnar og bókverkin hjá bókaormunum í Útúrdúr sem taka þátt í sýningunni.
 
 
img_2300 img_2349 img_2384 img_2387 img_2401 img_2367 img_2786 img_2553 img_2619 img_2634 img_2678 img_2714 img_2509 img_2466 img_2523 img_2433 img_2802 img_3091 img_3108 img_3152 img_3073 img_3488 img_3440 img_3517 img_3545 img_3558 img_3576
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is