peppermint_kob_2_18
Ásta Fanney Sigurðardóttir-Hannes Lárusson-Florence Lam
PEPPERMINT
02. 06. 2018 - 16. 06. 2018
 
Peppermint
Þrír nýjir gjörningar og síbreytileg vídeó sýning.
2.júní-16.júní í Kling & Bang

Sýningin Peppermint er ólíkindartól og einskonar þríhöfða þurs, þar sem þrír listamenn taka yfir sali Kling & Bang og framkvæma glænýja gjörninga. Listamönnunum sem boðið er til leiks eru Ásta Fanney Sigurðardóttir, Hannes Lárusson og Florence Lam. Öll eru þau á ólíkum stað í ferli sínum og fást við listformið á mismunandi hátt, en eiga það sameiginlegt að einbeita sér að gjörningalist í listsköpun sinni. Listamönnunum er skipt niður á sali gallerísins og fær hver og einn sitt rými og eina helgi á haus.

Samhliða þessari gjörningaveislu verða daglega sýnd ný verk úr The Confected Video Archive of Kling & Bang sem er síbreytilegt safn vídeólistaverka sem Kling & Bang hefur safnað til sín yfir margra ára skeið. Safnið telur nú yfir 300 vídeóverk og hefur áður verið sýnt í New York, Hamborg, Basel og Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Þetta er í fyrsta sinn sem safnið hefur verið sýnt í nýjum húsakynnum Kling & Bang.

Gjörningarnir verða sem hér segir:
Ásta Fanney Sigurðardóttir, 2.júní kl 17:00
Hannes Lárusson, 9.júní kl 16:00
Florence Lam, 16.júní kl 16:00

Um listamennina

Ásta F. Sigurðardóttir (fædd 1987) er listakona og skáld. Hún útskrifaðist úr myndlistardeild frá Listaháskóla Íslands og hefur sýnt list sína í fjölmörgum einka- og samsýningum bæði á Íslandi og erlendis. Meðal þeirra miðla sem hún fæst við eru teikningar, video, hljóðlist, innsetningar og gjörningar með áherslu á orðatengt fyrirbæri, tungumál og tónlist.

Um gjörning sinn segir Ásta: Lunar-10.13 & Gáta Nórensu er kvikmynd, æfing fyrir geimspæjarasöngleik í hægri endurspilun og sápureyfari. Listamunirnir eru formgerð sjónarmið, flytjendur ráða í mysteríuna um mun blekkingar og raunveru. Hljóðsporið er vísbending um framtíð.


Hannes Lárusson (fæddur 1955 í Reykjavík) hefur í verkum sínum fjallað um samhengi samfélags og samtímalistar, myndgervinga staðbundins menningararfs, möguleika og takmarkanir skapandi hugsunar, og hlutverk og stöðu listamannins í samfélaginu. Hann er meðal virkustu gjörningalistamanna þjóðarinnar, róttækur þátttakandi í menningarumræðu og jafnframt höfundur margbrotinna verka sem spanna afar vítt svið sjónrænnar tjáningar. Í myndlist hans á sér jafnframt stað stöðug víxlverkun milli skapandi vinnu á ýmsum tengdum sviðum s.s. hönnun, sýningarstjórn, fyrirlestrahaldi og greinaskrifum.
Meðal verka Hannesar er Hús í hús, sem sett var upp á Kjarvalsstöðum árið 2002, en í því verki er um að ræða samþættingu á handverki, hönnun, textagerð og gerningum. Einnig Gulrótarreglan (www.theorderofthecarrot.com) sem stofnuð var 2003, Take me on í South Alberta Art Gallery, Lethbridge, Canada 2004, Ubu Roi meets Humpty Dumpty (in Iceland) sett upp í Kling & Bang Galleri 2006, Based on a Dream, Arch II, Winnipeg, Manitoba 2008, Canada, What's your favorite colour? Reykjanes Art Museum, Icel. 2008, The Message of Mothman (ásamt Ásmundi Ásmundssyni), Listasafn Reykjavíkur, 2010. Hann og hún, ég og þau, Kling og Bang Galleri 2011 og Koddu. Íslenska leiðin, uppgangurinn, hrunið og þjóðarsjálfið sem og sýningin Kwicherbelliakin, innsetning í porti Listasafns Reykjavíkur haustið 2016, ásamt Ásmundi Ásmundssyni og Tinnu Grétardóttur.
Hannes hefur undanfarin ár unnið að afar margþættu og umfangsmiklu langtímaverkefni undir nafninu Íslenski bærinn/Turf House sem opnaði fyrstu sýninguna haustið 2014.
Fyrir sýninguna Peppermint í Kling og Bang, 9. júní, 2018 mun Hannes vinna nýtt verk sérstaklega fyrir sýningarrýmið.


Florence Lam (fædd 1992, Vancouver í Kanada) er upprunalega frá Hong Kong en býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2017 og BA í myndlist frá Central Saint Martins College of Art & Design, London, árið 2014. Í verkum sínum vinnur hún með gjörninga og tímatengdar innsetningar sem snerta á hugmyndum eins og undrun, töfrum, barni og jákvæðri sálfræði. Nýlegar sýningar eru Turin Table (Háskólinn í Turin á Ítalíu, 2018); Liver Leifer (Remscheid/Wuppertal/Solingen, Þýskaland, 2018); Performance Platform Lublin, Galeria Labirynt (Lublin, Pólandi, 2017); Sequences Art Festival, Mengi (Reykjavik, 2017); PAB OPEN (Bergen, Norway, 2017).

The Confected Video Archive of Kling & Bang er síbreytilegt safn vídeólistaverka sem Kling & Bang hefur safnað til sín yfir margra ára skeið. Í gegnum árin hefur Kling & Bang verið þess heiðurs aðnjótandi að vinna með fjölmörgum listamönnum sem vinna aðallega með vídeó eða kvikmyndir. Þetta samstarf varð Kling & Bang innblástur til að safna vídeóverkum til sýningar sem nú myndar The Confected Video Archive of Kling & Bang. Safnið vex í hvert sinn sem það er sýnt og stuðlar jafnvel að sköpun nýrra verka og er stöðugur flaumur listaverka sem flæða milli listamannanna, Kling & Bang og áhorfandans. Þegar video-arkífið er til sýnis er verkum úr því raðað saman, ýmist á nýjan hátt eða í kerfi sem áður hefur verið notað. Jafnvel þótt hver samsetning sé búin að hluta til úr sömu einingunum þá veitir hver og ein þeirra nýja sýn á heildina. Safnið er því aldrei fullbúið og takmarkið er óskilgreint.

Sýningin Peppermint er hluti af Listahátíð Reykjavíkur.
Kling & Bang er í samstarfi við Thyssen Bornemisza Art Contemporary í Vínarborg.
Kling & Bang nýtur styrks frá Reykjavíkurborg.


Kling & Bang
Marshallhúsinu
Grandagarði 20
101 Reykjavík

Opnunartímar
Miðvikudaga til sunnudaga frá 12-18
Fimmtudaga til 21
Lokað mánudaga og þriðjudaga
 
 
2101705029_070577
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is