|
|
|
Josephine van Schendel, Þórey Björk Halldórsdóttir, Bára Bjarnadóttir, Dýrfinna Benita Basalan, Tabita Rezaire, Brokat Films, Elín Margot, Tarek Lakhrissi |
Fallandi trjám liggur margt á hjarta |
30. 03. 2021 - 09. 05. 2021 |
|
Ef tré fellur í skógi og enginn er nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð? Já, fallandi trjám liggur margt á hjarta, og hljóðið berst úr órafjarlægð. Við erum einfaldlega ekki að hlusta.
„Það skiptir máli hvernig sögur við segjum til að segja sögur … það skiptir máli hvaða sögur móta nýja veröld og hvaða veröld mótar söguna.“
Hlustum á þær raddir sem áður hafa verið þaggaðar niður. Ferðumst til útópískra heima þar sem ástin ræður ríkjum. Kynnumst sameiginlegum skilningi milli manna og náttúru. Hér er búið að hvolfa valdapýramídanum og geimverur sækja okkur heim til þess að segja okkur frá lífinu á jörðinni. Þetta hljómar kannski furðulega, en við búum í furðulegum veruleika.
Sögurnar sem móta heimssýn okkar eru enn þann dag í dag frásagnir feðraveldis. Femínískur vísindaskáldskapur endurskrifar þessar frásagnir og með því að veita framlagi kvenna og jaðarhópa aukið vægi vörpum við ljósi á fjölbreyttari viðhorf til tilvistar okkar á jörðinni. Þannig gefum við ólíkum sjónarhornum tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun framtíðarinnar með tilliti til þarfa og hagsmuna minnihlutahópa sem hafa hingað til ekki verið í forgrunni.
Á undanförnu ári hefur heimurinn sýnt okkur að hann er ekki eins óhagganlegur og við gáfum okkur. Hvernig viljum við endurræsa samfélagið þegar sóttkvínni er lokið? Nú gefst okkur tækifæri til að hlusta.
Helena Aðalsteinsdóttir, sýningarstjóri.
|
|
Brokat Films samanstendur af málaranum og sjálfskipuðu stjörnunni, Sasa Lubińska (1990, Póllandi) og vídeólistakonunni Joanna Pawłowska (1990, Póllandi, býr á Íslandi). Með myndavélar, þrívíddarforrit og glimmer í farteskinu, ferðast þær um himingeima og segja frá lífi á fjarlægum plánetum. Nú liggur leið þeirra til jarðar í leit að þægindarammanum og sannri gerviást.
Tabita Rezaire (1989, Frakklandi, býr á Frönsku-Gíneu) nýtir sér hjálp stafrænna og líkamlegra minninga sem og minni erfðaefnisins til að ögra orðræðu fyrirgefningarinnar. Hún gerir tilraun til að biðjast fyrirgefningar fyrir hönd hins vestræna heims á nýlenduvaldi kapítalismans og hvítrar forréttindahyggju. Hverjum gagnast afsökunarbeiðnin og hvaða valdastrúktúr skýlir hún?
Köngulóin vefur sér vefi með sterku silkinu sínu, af mikilli nákvæmni og bíður svo þolinmóð eftir að bráðin festist í vefnum.. Næst vefur hún fórnarlambinu inn í silkisekk, sprautar meltingarensímum inn í sekkinn og sýgur úr honum næringuna. Dýrfinna Benita Basalan (Íslandi/Filippseyjum) spyr: Er þetta fallegt? Hættulegt? Kvenlegt?
Vinnuferli Báru Bjarnadóttur (1991, Reykjavík) er einskonar bland í poka, kræklótt og persónulegt. Í dvöl á landareign móður hennar fá mæðgurnar, gróðurinn og plastagnir jafnan hljómgrunn. Saman mynda þau samtal sem er heyrist best með innsæinu, en á þessu landi ganga samskiptin smurt með hjálp ímyndunaraflsins.
Þórey Björk Halldórsdóttir (1982, Reykjavík) er upplifunarhönnuður og bruggari. Hún er fagnaðarnorn sem þrífst á óvæntum uppákomum og galdrar fram kjörumhverfi fyrir hvers kyns samveru og fjör. Hvernig er hægt að gleðjast saman í kjölfarið af skyndilegum breytingum í félagslegum samskiptum síðastliðins árs? Hvernig föðmumst við án þess að snertast? Hvernig förum við í sleik án þess að deila munnvatni?
Skál!
Josephine van Schendel (1996, Hollandi, býr í Svíþjóð) veltir upp spurningum um kyngervi í hellenískri list með aðstoð gervigreindar. Útfrá ljóðum eftir Brook Corfman og staðreyndum um hlýnun jarðar, spinnur vélmenni sögu um veiðimann og safnara frá árinu 2050. Sagan birtist í formi skáldaðra minnismiða, fornleifa úr framtíðinni og landslagsljósmynda.
Elín Margot (1995, Frakklandi, býr í Reykjavík) er matarhönnuður og listamaður. Matarupplifanir hennar velta upp félagsviðmiðum samtímans þar sem matur spilar stóran part í tjáningu menningarlegrar sjálfsmyndar. Í mögulegri framtíðarsýn mást út skil matar og manneskju þar sem Elín Margot veltir fyrir sér samskiptum innan fæðukeðjunnar.
Tarek Lakhrissi (1992, Frakklandi, býr í Belgíu) fæst við pólitísk og félagsleg mál með tungumáli, töfrum, skringilegheitum, kóða og ást að vopni. Í framtíðarsýn þessa verks ógnar innrás frá annarri plánetu ríkjandi stefnu kapítalisma á jörðinni og ryður braut fyrir femíníska drauma. Tónn vonar og melankólíu taka yfir er við hlýðum á söng þessa nýja heims.
|
|
|
|
|
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík
kob@this.is |