334794972_1175438179788049_6200819397081750634_n
Helena Margrét Jónsdóttir Lidija Ristic, Ragnheiður Káradóttir, Virginia Lee Montgomery
Töfraheimilið / Magical home
18. 03. 2023 - 23. 04. 2023
 
Töfraheimilið / Magical Home / OPNUN
Opnun er: 18. mars 2023 kl 17-19

Töfraheimilið

Texti eftir Fríðu Ísberg skrifaður sérstaklega fyrir sýninguna:

Ég stíg inn um gættina á heimilinu. Fyrir innan gáttina lít ég til baka og veröldin fyrir utan er innrömmuð mynd. Í smá stund freistar mín að teygja höndina í gegn, til að vera viss um að veröldin sé ekki innrömmuð mynd. Svo finn ég að munnur minn hangir opinn, hálfheimskulega. Það er þá sem orðið gáttuð opnast fyrir mér.

Ég tek tvö skref inn í forstofuna og heyri að skórnir mínir eru blautir. Þegar ég lít niður í leit að dyramottu, eða einhverju til að þerra sólana, sé ég spor ganga inn ganginn. Ég elti fótsporin inn í stofuna (ég passa mig að feta þau ekki) að kunnuglegum vegg. Það eru engin spor frá veggnum aftur. Þau liggja að honum og svo hverfa þau. Ég lít í kringum mig. Svo stíg ég beint ofan í sporin fyrir framan vegginn og bíð.

Eftir smá stund sé ég að veggurinn er mynd, og á bak við myndina er annar veggur. Ég smeygi hendinni á bak við myndina. Þar sem naglinn ætti að vera, finn ég tóma holu.

Ég bíð eftir að eitthvað fleira gerist. Eftir annarri opnun. Ekkert gerist.

Ég gefst upp og geng inn í svefnherbergið. Þar er rúm, og á náttborðinu er sími. Ég tek upp símann, ég leggst niður og sekk í gegnum síma og rúm. Inni í símanum er allt það sem er í venjulegum síma. Undir rúminu er annað rúm. Fyrir neðan neðra rúmið er gólf. Steypt, er það ekki? Ég banka með hnúunum en heyri engan dynk. Ég ligg og sé að í loftinu eru teiknaðar útlínur af liggjandi manneskju. Hún er handalaus frá olnboga, svo ég get aðeins dregið þá ályktun að hún sé að nota hendurnar.

Er hún í símanum? Skyndilega læðist að mér grunur. Er hún í sama tíma og ég? Síma, afsakið, ég meina síma.

Ég hrekk upp og stend við rúmgaflinn. Það er þá sem ég sé mylsnu í lakinu. Ég legg vísifingur upp að vörum, ósjálfrátt, í djúpri íhugun, og þá finn ég samskonar mylsnu á miðri kinn!

Ég skyggnist um eftir uppsprettunni: tómum disk eða umbúðum. Ég fikra mig aftur út á gang, án þess að taka augun af gólfinu, og inn í eldhúsið. Það er lítið og afmarkað og með stórri innrammaðri mynd yfir vaskinum. Ég skima yfir yfirborðin en finn engar vísbendingar þar heldur. Ekkert skurðbretti, enginn skítugur hnífur. Skyndilega verður herbergið bjartara, gulleitara. Ég lít upp og sé að á innrammaðri myndinni er sól. Ég stend þarna eins og tröll í dagrenningu. Það er þá sem orðið steinhissa opnast fyrir mér.

Síðan, ofurhljóðlega, feta ég mig að myndinni, sem ég veit núna að er veröldin, innrömmuð. Ég strýk rammann með fingrinum og sting svo höndinni, hikandi og örlítið feimnislega, á bak við myndina, í leit að naglanum. Einhver hefur sparslað í holuna.

Helena Margrét Jónsdóttir: Málverk Helenu fjalla um hversdagsleikann á tímum þráðleysis og stafræns myndmáls. Viðfangsefni hennar eru gjarnan ímynduð, girnileg, raunsæ og óþægileg. Þar eru köngulóm og draugum gjarnan parað saman við nammi, snakk og drykki sem ýtir undir samspilið á milli ótta og langana. Allur glans og endurspeglanir eru ýkt sem gerir fyrirmyndirnar bæði óhugnalegri og girnilegri.


Helena Margrét Jónsdóttir nam myndlist við Konunglega Háskólann í Den Haag í Hollandi og lauk BA gráðu í myndlist í Listaháskóla Íslands árið 2019. Helena útskrifaðist með stúdentspróf úr Myndlistarskólanum í Reykjavík árið 2016. Helena hefur verið með einkasýningar á alþjóðavísu, meðal annars í Hverfisgallerí, Plan X Gallery í Mílanó og Ásmundarsal. Hún hefur tekið þátt í samsýningum og listamessum eins og til dæmis í Kjarvalsstöðum, CAN Art Fair í Ibiza, Untitled Art Fair í Miami. Helena er einn af listamönnum á skrá hjá Plan X Gallery í Mílanó.

-
Lidija Ristic: Lidija Ristic tvinnir hlutum saman og býr til blendinga. Þetta birtist í notkun hennar á fundnum hlutum og auðfáanlegum, ódýrum efnivið úr byggingavöruverslunum, apótekum, og í því hvernig hún skeytir saman stafrænum ferlum, hefðbundnu handverki og nálgunum myndlistarinnar. Í verkum Ristic kemur þannig hið „raunverulega“ og hið „óraunverulega“ saman, eins og að stilla saman gervifeldi og leðri, beini með glimmeri eða hengja ljósmynd upp við hliðina á því sem hún sýnir. Miðillinn sjálfur verður enn eitt lag í verkinu. Hlutirnir sem hún býr til verða síðan aftur efni í næstu ljósmynd, myndband eða hljóðverk.
Lidija Ristic er af serbneskum-amerískum ættum og býr og starfar á milli Belgrade og New York. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í skúlptúr frá Massachusetts College of Art árið 2010 og með MFA gráðu í Studio Art frá New York University árið 2021. Verk hennar hafa verið sýnd víða um heim, t.d. New York, San Francisco, Boston, Berlin, Leipzig, Milan og Belgrade.

-
Ragnheiður Káradóttir: Ragnheiður vinnur þrívítt, bæði í skúlptúr og innsetningar í rými. Rík efniskennd einkennir verk hennar sem og formhrein afbygging veruleikans. Hún sækir gjarnan innblástur í fagurfræði og andrúmsloft hvers kyns afþreyingarheima og leyfir húmor og leik að ráða för í sköpunarferlinu. Í verkum sínum leiðir Ragnheiður áhorfandann inn í aðrar víddir sem eru kunnuglegar en lúta þó sínum eigin lögmálum. Þessar ímynduðu hliðarvíddir skapa eins konar rof á veruleikanum, á látlausan, nákvæman og dulúðugan hátt.
Ragnheiður útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og lauk MFA gráðu frá School of Visual Arts í New York 2016. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga á alþjóðavísu þar á meðal einkasýningar í D-sal í Listasafni Reykjavíkur og í Harbinger. Ragnheiður var tilnefnd til Íslensku Myndlistarverðlaunanna árið 2022 ásamt Önnu Hrund Másdóttur og Steinunni Önnudóttur fyrir sýninguna “feigðarrós - dreamfields” í Kling og Bang.

-
Virginia Lee Montgomery (VLM): Í vídeóverkum sínum, gjörningum, hljóðverkum og skúlptúrum blandar VLM saman dulspeki, vísindum og sjálfsævisögulegum nálgunum og rýnir í frumeindir meðvitundar okkar. Verk hennar eru súrrealísk, táknræn og byggja á skynrænum upplifunum. Viðfangsefni verkanna getur verið steinn, mölfluga eða vél sem hún notar í takt við sinn óhefðbundna sjónræna orðaforða og form og tákn sem geta endurtekið sig út í hið óendanlega, eins og hringur eða hola eða hnöttur. Í fjölbreyttri listrænni nálgun sinni skoðar hún hin flóknu sambönd milli hlutrænna og huglægra strúktúra heimsins út frá tilraunum, samvinnu og sameiginlegri meðvitund fólks.VLM deilir tíma sínum á milli Texas og New York. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í skúlptúr frá The University of Texas árið 2008 og með MFA gráðu í skúlptúr frá Yale University árið 2016. Virginia hefur haldið einkasýningar m.a. í New Museum, Times Square Arts og Hesse Flatow í New York, Museum Folkwang í Þýskalandi og The Lawndale Art Center í Texas. Hún hefur haldið ýmsar samsýningar, t.d. SculptureCenter í New York og Kunsthal Charlottenborg í Danmörku.

Sýningartímabil:
18.03.23 - 23.04.23.


Opið miðvikudag til sunnudags kl. 12-18.
Hönnun: alexjean.design


Styrkt af: TBA-Thyssen-Bornemisza Art Contemporary, Reykjavíkurborg, Myndlistarsjóði og Evrópusambandinu
 
 
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is