Hannes Lárusson
Ubu Roi meets Humpty Dumpty (in Iceland)
13. 05. 2006 - 18. 06. 2006
 
Þegar Ás var sýnt hjá FUGLi í Reykjavík árið 2005 var kvikmynd, lúppaðri kvikmynd þar sem grjótinu var lyft og snúið, varpað á vegg hjá hreyfingarlausum skúlptúrnum. Stálteinarnir litu þar síður út sem handföng, öllu heldur sem sveifar eða fætur, tákn fyrir snúning og hreyfingu. Gegn kyrrstöðu skúlptúrsins glataði maður því félagslega, varð einn, en ekki hluti af 11 manna sveit vaskra sveina. Ás hafði strandað, ekki ósvipað leiktækjum sem hafa fallið í gleymsku á barnaleikvelli.

Grjótið sjálft er úr íslensku basalti[2], samskonar stuðlabergi og Richard Serra notaði í Áföngum (1990), höggmynd sinni í Viðey. Joseph Beuys[3] notaði einnig basalt í 7000 eikur (1982) á Documenta 7. Hin sérkennilega fimm- eða sexstrenda ásýnd basaltins á ekki orsaka sinna að leita í raunverulegri kristallabyggingu heldur mótast steinninn svona vegna samdráttar sem á sér stað þegar bráðið hraun kólnar. Þetta er ekki ósvipað átthyrndum sprungumyndunum sem einkenna leðju þegar hún þornar.[4] Kælingin er ferli sem felur í sér sí-aukna kyrrð. Það er á svipaðan máta sem Ás er jarðfastur. Eitt sinn félagslegur skúlptúr sem hringsnerist en hefur nú staðnæmst, orðinn að stöku tákni, eins og flæðandi jarðkvikan sem varð að steingerðu basalti þegar hún kólnaði.

Hugsið ykkur stálteinana 11 og mennina 11 sem lyftu steininum. 11 er tala hins ófullgerða Ás minnir á Táknið (The Sign), risavaxinn átthyrndan kvartskristal sem var við hátíðlega athöfn afhjúpaður í nýlendu listamanna í Darmstadt árið 1902 sem ták um birtingu „nýrrar aldar“. (Fyrsta átthyrnda vörumerkið sem Peter Behrens gerði fyrir þýska rafmagnsfyrirtækið AEG árið 1908 var byggt á Tákninu[6]). Ás minnir einnig á Fæðingu Sýke (1915-1918), lágmynd eftir Einar Jónsson (1874-1954) sem er til sýnis í safni hans í Reykjavík. Sýke, persónugerfing sálar einstaklingsins með Grikkjum, er í táknmynd nakinnar konu sem beygir sig niður í miðju rammans. Frumefni Forn-Grikkja, jörð, loft, eldur og vatn, sveigja sig öll að henni á brotnum ás. Að neðan frá vinstri heggur ímynd jarðarinnar, í mynd myndhöggvara, út baksveigju Sýkear. Hann situr á stuðlum úr basalti og beygir sig svo hann myndar rétt horn við hamar sinn og meitil. Myndbyggingin er hakakross, swastika[7] eða fylfot[8].

Ás er ellefuarma ‘fjölfótur’ úr steini og stáli, þrívítt hendekaskelion. Sögulega er hakakrossinn þekktur um allan heim, jafnt á Indlandsskaga og þeim héruðum Asíu sem játa Búddatrú sem í Grikklandi til forna, í Skandinavíu á miðöldum og fyrr og í Ameríku fyrir landafundina. Notkun þess sem tákn þjóðernissinna í Þýskalandi er alræmd. Táknið hefur hlotðið heitið tetraskelion, swastika, höfuð Medúsu, fylfot, sólarhjól[9] og Þórshamar, en á Íslandi er hefð fyrir því að kalla hann hakakross. Í Mið-Evrópu er táknið þekkt undir nafninu ‘Svarta kóngulóin’ og satt að segja er Ás engu líkari en hræðilegri svartri kónguló. Þótt Ás sé fergjaður með grjóti og stáli, þá er hann einnig festur niður og honum sett takmörk með tvíræðum þjóðsögnum og sögu ‘fjölfótsins’, í mynd sem felur í sér bæði frjósemi sólhjólsins og illgirni pólitískrar kóngulóar.

Talsvert hefur kveðið að bókinni Hamlet’s Mill undanfarið[10]. Í henni sett fram sú kenning að í raun séu goðsagnir á jörðu ekkert annað en fornt tæknimál til lýsingar á stjarnfræðilegum atburðum sem áttu sér stað á forsögulegum tímum. Í Hamlet’s Mill er rakinn sameiginlegur rauður þráður í gegn um goðsagnir heimsins, um mylluhjól sem snýst um ás. Í sögnum þessu gerist eitthvað stórkostlegt sem hefur þá afleiðingu að mylluhjólið eyðileggst. Þetta verður svo til þess að mikilum konungi eða guði er steypt og annar tekur hans stað. Samkvæmt Finnó-Úgrískri goðafræði er ‘Sampo’, hlutur með töfraeðli sem færir gæfu, mylluhjól sem býr til hveiti, salt og gull úr engu. Hamlet’s Mill byggir á þeirri hugmynd að mylluhjól goðafræðinnar sé myndlíking öxuls þar sem ásinn er Jörðin sem snýst undir himnunum.

Eitt tiltölulega nýtt „mylluhjól“ er áhugavert í þessu samhengi þótt það sé þegar orðið að goðsögn: Minnismerki þríðju alþjóðasamtakanna eftir rússneska konstrúktívistann Vladimir Tatlin. 6 metra há fyrirmynd að 400 metra hárri turnbyggingu, sem nú er glötuð. Byggingin var auðvitað aldrei reist, enda voru verkfræðilegar forsendur hennar hæpnar og afar ólíklegt að hægt hefði verið að reisa hana[11]. Tatlin gerði tilraun til að færa hreyfingar sólkerfisins til Jarðar og endurgera þær í ríkismannvirkjum. Risavaxinn skáhallandi hryggur, spíralrampar sem minna á snákana sem sniglast upp eftir staf Hermesar, og svo bogar í hálfhring; byggingin er í laginu eins og maður á göngu, eins og risavaxin útgáfa af verki fútúristans Umberto Boccioni, Einstök form samfellu í rými (Forme uniche della continuità nello spazio) (1913). Stálbeinagrind átti að bera minnismerkið uppi. Innan í henni voru stakar byggingar úr gleri: neðst var kúla, síðan isosceles tíflötungur, ferningur og efst keila. Byggingar þessar áttu að snúast um öxul sinn mishratt, árlega, mánaðarlega, daglega og á hverjum klukkutíma og þær áttu hýsa margvíslega fundarsali Alþjóðasamtaka kommúnista. Í upphaflega líkaninu var lítill drengur látinn felast í stöplinum. Hann sneri sveif sem kom innri líffærum þessarar tillögu að ‘pólítískum líkama’ á hreyfingu.

Ellefu manns buðust til að taka á járnhandföngum Áss, lyfta verkinu og snúa því í hring réttsælis Í fjöruborði á Íslandi eru þrjú mikil grjót sem sagnir herma að hafi verið notuð til að reyna menn og til að ákvarða mönnum keip (sæti við árar) á fiskibátum.[13] 143 kílóa sandsteinshella frá sjöttu öld fyrir Krists burð fannst í Ólympíu á Grikklandi. Á hellunni er áletrunin: „Býbon, sonur Fólosar, lyfti þessu yfir höfuð sér“. Maður getur samt sem áður ekki lyft takmarkalausri þyngd. Þegar hámarki er náð verður að njóta aðstoðar einhverskonar lyftingatækja. Á því leikur enginn efi að fyrsta aðstoðin hafi einfaldlega verið annar maður og mætti giska á að slík samvinna, eða kúgun, hafi verið ein af orsökum þess að samfélagið varð til í árdaga.[14] Gangsetjið hvorugtveggja, láréttan og lóðréttan ás sem mynda rétt horn hvor við annan. Hugsið ykkur að á vöku-ásnum sé líkaminn í lóðréttri stöðu en hreyfist lárétt. Hugsið ykkur svo að á draumásnum liggi sofandi líkaminn í láréttri stöðu á meðan hugurinn hreyfist lóðrétt. Þetta er ásinn, rofinn, mitt á milli veraldlegs vökuástands og hins heilaga alsjáandi ástands draumsins. Höggmyndaás Hannesar Lárussonar malar á öllum þessum sviðum. Ás er draumur um þyngdarlausan stein og að vakna til 7 sekúndna samfélags 11 manna sem sí og æ erfiða við að lyfta og snúa raunverulegum og goðsagnarkenndum þunga grjóts og stáls.



--------------------------------------------------------------------------------

[1] Þvermál skúlptúrsins að meðtöldum stálstöngunum er um 290 cm.

[2] Basalt svar-grátt berg sem myndast við eldgos á svæðum þar sem jarðflekar færast hver frá öðrum. Á Íslandi nær Mið-Atlantshafshryggurinn upp úr hafinu. Vegna þessa eru 90 af hundraði bergs á Íslandi basalt. [3] „Þetta eru basaltsúlur sem maður finnur í gígum útkulnaðra eldstöðva, þar sem þær fá á sig prismatíska, hálf-kristalskennda mynd vegna þeirra aðstæðna sem voru til staðar þegar bergið var að kólna …“ Joseph Beuys úr Johannes Stüttgen, Beschreibung eines Kunstwerkes, Düsseldorf, 1982

[4] „Við gengum yfir þetta risavaxna dökkgráa grjót sem höfðu fengið á sig form átthyrndra prisma við kælinguna“, Jules Verne, Ferðin til miðju Jarðarinnar, 1874.[5] Það hefur komið fram mikið af yfirdrifnum lestri í táknræna merkingu tölunnar 11 frá því að Tvíburaturnarnir í New York hrundu 11. september.

[6] Frederick Schwartz, “Commodity Signs: Peter Behrens, The AEG, and the Trademark,” Journal of Design History, 1996.

[7] „… það sem helst olli því að listamaðurinn ákvað að nota þetta tákn (“swastica”) var hversu líkt það var ákveðinni lögun stjórnuþyrpingar, sem það gæti táknað og þannig hægt að leggja til að sólkerfi lúti sömu lögmálum og mannverur.“ Guðm. Finnboigason í Einar Jónsson, Myndir, Reykjavik: Kaupmannahofn: 1925 Bls. 76

[8] Orðið fylfot er sennilega myndað úr forngermanska orðinu fiël, fjöl, og fótr, fótur, fjölfætt tákn. Sjá einnig, Count Goblet d’Alviella, The Migration of Symbols, New York: University Books, 1956 (1894).

[9] Sólarhjólið er af sama meiði og sólarkrossinn, kross umluktur hring. Gefið gaum að fjögurrateina hjólunum á sólarvagninum frá Trundholm frá hinni norrænu Bronsöld (1500 f. k.), þar sem hestur á bronshjólum dregur sólina á eftir sér.

[10] Hertha Von Dechend and Giorgio de Santillana, Hamlet's Mill, An Essay Investigating the Origins of Human Knowledge and Its Transmission Through Myth, Boston, Mass: Gambit, 1969[11] Líkan Tatlin hefur margoft verið endurgert frá 1920, á mis-nákvæman hátt. Þó stendur nú (2006) til að reyna að ljúka byggingu minnismerkisins í fullri stærð, með raunverulegum stálbitum og kapli. Hugmyndin er að framleiða minnismerkið í hlutum um allan heim þar til allt minnismerkið hefur risið. Sjá, http://www.tatlinstowerandtheworld.net/tt/start.htm

[12] Í hofi múslima í Shivapur, á Indlandi, er 70 kílóa grjót sem sagt er að sé lyft árlega af 11 vísifingrum 11 hægri handa.

[13] Með 11 ræðara er Ás eins og bátur sem er í ójafnvægi og er sífellt róið í hring.

[14] Það má líta svo að að það hafi ekki verið málið að Forn-Egyptaland hafi reist píramídana, heldur að píramídarnir hafi reist Forn-Egyptaland. Þ.e.a.s., það voru tæknilegir og skipulagslegir hæfileikar til þess að lyfta grjóti, til að byggja píramída, sem komu til nærri upphafi Forn-Egypskar menningar og lögðu grunninn að félagslegu og stjórnarfarslegu skipulagi Egyptalands til forna.
 
 
hannes1 hannes3 hannes4 hannesxx statue feet lightsface talk1 tunnel1 tunnel2 tunnel3 tunnel4 tunnel5 tunnel6 tunnel7 video3 hanvideo hanvideo2
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is