hannes2
Steingrímur Eyfjörð
STEINGRÍMUR EYFJÖRÐ - AFTERIMAGE
07. 08. 2004 - 29. 08. 2004
 
Opnun laugardaginn 7.ágúst 2004 kl.17.00

Kling & Bang gallerí (efri hæð)

Á gráu svæði
Steingrímur Eyfjörð í samtali við Þorvald Þorsteinsson

ÞÞ: Hvað heitir þessi sería?
SE: Hún heitir Afterimages.
ÞÞ: Og vísar þá í hvað?
SE: Þetta er náttúrlega mjög einfalt, nánast banalt, og vísar í þetta afterimage
sem myndast þegar þú
horfir t.d. á grænan flöt og lokar augunum þá sérðu rautt. Í rauninni er þetta
eitt lag í verkinu sem um
leið tekur áhorfandann inn í það; þú sérð mynd af einhverri persónu hérna og þá
kemur svona
afterimage af einhverri annarri persónu. Þannig að það er verið að yfirfæra
þessa sjónskynjun yfir í
hugmyndir. Það er mikið verið að tala um frelsi og einstaklingshyggju og allar
þessar persónur sem
vitnað er í hafa talað um að einstaklingurinn sé tekinn af einhverri hugmynd,
nánast einsog róbót, ef við
getum notað það orð, kannski ekki alveg þannig, en þú veist; stjórnast af ríki,
kirkju, sjónvarpi, neyslu
og öllu því.
ÞÞ: Eru þá þessir einstaklingar sem þú notar í myndirnar tákn fyrir ákveðnar
deildir innan kerfisins eða
hugmyndasögunnar?
SE: Þetta er náttúrlega ekki tæmandi listi yfir einstaklinga sem standa fyrir
einhvers konar
frelsishugmyndir eða einstaklingshyggju en það má segja að þeir séu fulltrúar
nokkurra viðhorfa á
einhverju menningarlegu plani. Eins og bæði Thatcher og Hannes Hólmsteinn, þó
svo þau séu í pólitík
þá eru þau líka mjög tengd menningarlegri þróun.
ÞÞ: Hvar er þessi þróun stödd í dag? Er þetta allt í gangi eða erum við tengd
einhverju einu þessara
viðhorfa frekar en öðru?
SE: Ég átta mig ekki alveg á því, en hér á landi er að koma upp þessi spurning
um annars vegar frelsi
mannsins og hins vegar frelsi markaðarins, er það ekki? Hvað finnst þér?
ÞÞ: Mér finnst einhvern veginn einsog þetta skarist orðið meira en nokkru sinni;
hugmyndin um frelsi
einstaklings og markaðar sem táknmyndar fyrir ótal litlar einingar að störfum,
frelsi stórfyrirtækja og
auðmanna til að athafna sig og frelsi ríkisvalds til að „vernda“ þegnana. Þessu
frelsi öllu er búið að
hræra saman í einn graut sem ég er löngu hættur að skilja hverjum gagnast öðrum
en efsta laginu.
SE: Það virðast samt einhver konflikt vera að koma upp.
ÞÞ: En telurðu að það sé aftur snúið? Er tími byltinga ekki liðinn? Þá meina ég
frelsi einstaklingsins til að
rísa upp, mynda samtök og breyta heiminum... eru þetta ekki bara nostalgískar
myndir hjá þér?
SE: Nei, alls ekki, ég held að þessi krafa fari að koma. Ég býst við því að þó
markaðurinn stjórni því
eitthvað fái einstaklingurinn að ráða sinni eigin sögu. Gott dæmi um það er
Duchamp. Hann gekk í það
að hliðra til einhverjum lögmálum til þess að komast hjá því munstri sem var
ráðandi á fyrri hluta 20.
aldar.
ÞÞ: Er þetta þá kannski spurning um að nú á dögum hafi einstaklingurinn bæði
frelsi og aðstöðu til þess
að skapa sinn eigin heim? Er þetta þá ekki frekar spurning um hvort hann viti
það, skynji möguleikana
og nýti sér þá?
SE: Það er mjög erfitt að svara þessu. Þessi sýning er kannski ekki til að svara
spurningum heldur vekja
upp spurningar.
ÞÞ: Ertu þá að vekja spurningar hjá sýningargestinum? Skerpa meðvitund hans um
eigið frelsi?
SE: Það er algerlega þannig og á einhvern hátt er svolítið verið að afbyggja þá
merkingu sem hver og
einn stendur fyrir. Þetta er svona einsog hugmyndafræðilegur hrærigrautur, eins
og þú farir í eitthvert
munstur og hrærir í því og út kemur pínulítið kaos vegna þess að þessar persónur
eiga sumar ekki
saman en samt er eitthvað svipað í gangi.
ÞÞ: Finnst þér þú hafa meira frelsi til þess að vinna með þetta á þennan hátt,
sem þú kallar hrærigraut,
sem listamaður, heldur en ef þú værir fræðimaður eða vísindamaður? Ert þú að
nýta þér þitt „listræna“
frelsi til að búa til tillögu eða opna spurningar sem fræðimaður myndi ekki geta
leyft sér innan síns
ramma?
SE: Ég held að fræðimenn séu ekkert frekar bundnir af einhverjum mörkum og gæti
vel trúað því að
einhverjir, t.d. í Evrópu eða Bandaríkjunum, séu að skoða svipaða hluti en
kannski á einhvern annan
hátt.
ÞÞ: Ertu upptekinn af því að vera myndlistarmaður þegar þú vinnur svona verk?
Hvar staðsetur þú þig?
SE: Já, ég held að þetta sé myndlist. Þetta fellur alveg undir þau lögmál, þetta
er inni í þeim heimi. Hvað
finnst þér um þetta?
ÞÞ: Einsog ég skynja þetta þá finnst mér þú vera að gefa mér eins konar
áminningu um leiðir án þess að
velja sjálfur, án þess að vísa á eina leið. Ég gæti hinsvegar ímyndað mér þessa
seríu stærri til þess að
skila betur þeirri hugsun að þú sért að varpa upp möguleikum frekar en að sýna
okkur valdar
höfuðstefnur eða skapa einhverjar innri andstæður eða pörun innan þessa úrvals.
Maður fer ósjálfrátt
að leita að slíku, þannig að spurningin er af hvejru sýnir þú okkur ekki
fleiri?
SE: En þetta er hugsað þannig að þegar þú sérð þessa einstaklinga þá bætirðu
sjálfur við fleiri fulltrúum
þessara hugmynda.
ÞÞ: Gætu þá auðu fletirnir til hliðanna, þessir svörtu og hvítu, nýst mér til að
fylla inn í?
SE: Þegar þú segir það, þá gæti það jafnvel verið þannig.
ÞÞ: Mér líður strax betur þegar ég hugsa það þannig.
SE: En svo er ég með hérna viðtalið sem var tekið í Maastricht í janúar. Það er
eiginlega eins og ég hefði
ekkert þurft að fara í þetta viðtal vegna þess að þau voru búin að ákveða þetta
allt saman áður en ég
mætti.
ÞÞ: Þau voru búin að búa til mynd af þér sem þú mættir svo til að lifa uppi í?
SE: Já, það var nákvæmlega þannig og það er dæmi um hvernig fólk fer inn í
einhverskonar munstur eða
kerfi í samræmi við það sem ætlast er til af því. Þú hefur sjálfur farið í
viðtal einhversstaðar fyrir
sjónvarp eða blað þar sem þú gengur inn í einhvern gefinn ramma þannig að sá sem
spyr hefði þess
vegna ekkert þurft á þér að halda, hann hefði bara getað leikið þig, finnst þér
það ekki?
ÞÞ: Ég hef oft upplifað það eins og ég sé fyrst og fremst mættur til að leika
sjálfan mig einu sinni enn.
Og ekki bara einhvern veginn, heldur nákvæmlega einsog maður leikur sig, í
segjum Kastljósi.
SE: Þú fórst líka í þetta viðtal í Maastricht, fannst þér það ekki vera það
sama? Braustu múrana eða
fannst þér að þú værir tilbúinn að fara inn í rammann sem þú varst settur í?
ÞÞ: Ég man nú satt að segja ekki alveg nákvæmlega hvernig mér leið með það því
ég var svo hissa á því
að þetta væri eingöngu hljóðupptaka eftir að hafa verið fluttur alla leið frá
Los Angeles til að gera þetta.
Það hefði alveg eins verið hægt að gera þetta í gegnum síma eða e-mail. Ég hélt
að þetta yrði fyrir
fullum sal af fólki, þannig að ég var eiginlega allan tímann að jafna mig á því
að ég væri bara að tala við
einn mann og reyndi bara að vera kurteis og góður við hann. En það er alveg
rétt, ég samsama mig
alveg við þessa lýsingu hjá þér með hlutverkið þegar ég hugsa um það núna. Ég
var þarna fyrst og
fremst sem fyrrverandi Jan van Eyck nemi og heilastöðvarnar fóru strax inn í þær
deildir og sóttu sögur,
dæmi, forsendur og réttlætingar sem ég hef ekki þurft að nota í 15 ár.
SE: Það var svolítið einsog þú værir þarna til að búa til goðsögu um eitthvert
tímabil í Jan van Eyck. Eins
og þetta hefði jafnvel verið eitthvert blómaskeið, finnst þér það ekki?
ÞÞ: Jú, og ég vildi gjarnan hjálpa til. Við erum svo þægir, við erum svo góðir,
við vildum ekkert vera að
krydda súpuna með einhverjum óvæntum sprengingum.
SE: Það er alveg rétt.
ÞÞ: Við mættum þarna til að taka þátt í byggingu goðsögunnar. En viðtalið sem þú
ert með uppskrifað
hérna á veggnum og verkið um einstaklingsfrelsið, skapar það markvisst
einhverjar andstæður á
sýningunni? Þar sem þú ert sýndur eins og strengjabrúða andspænis fulltrúum
einstaklingsfrelsisins?
SE: Kannski ekki alveg. Ég hefði getað verið með eitthvað annað í staðinn fyrir
viðtalið í Maastricht,
eitthvað um ríki og kirkju eða einhverjar stofnanir í ákveðnum ramma, en þetta
er svona meira
persónulegt.
ÞÞ: En heldur þú að það séu forsendur fyrir utanaðkomandi sem lesa viðtalið á
veggnum að skynja þetta
ófrelsi sem þú gekkst inn á þarna?
SE: Nei, ég held að það sé ekki möguleiki.
ÞÞ: Nei.
SE: Ekki nema þegar við segjum frá því.
ÞÞ: Og þess vegna erum við kannski að segja frá því.
SE: En svo er náttúrlega eitt mjörg sterkt element sem ég tel vera í þessu
verki, sem er entertainment.
Pínulítil skemmtun. Eða ég vona að það virki þannig. Ég er að taka þessar
persónur út úr einhverju
samhengi og setja þær þar sem þær harmónera á einhvern hátt án þess að vera að
leggja á það pólitískt
mat. Ég býst við að það sé það fyrsta sem hreyfir við fólki. Þetta er ekki
pólitískt verk, þetta eru
pólitískar spurningar en þetta er ekki áróður, þetta er frekar andáróður.
ÞÞ: Er þetta svona Benetton verk?
SE: Já, þetta er svona Benetton verk, það er rétt.
ÞÞ: Að sýna alla þjóðflokka í sama hlutverkinu án þess að gera upp á milli
þeirra.
SE: Já, þetta er svolítið þannig, þó að auðvitað hjá Benetton mundi þetta snúast
um heimsvæðingu og
nýja markaði.
ÞÞ: Þegar þú ert ekki í Maastricht að leika viðeigandi hlutverk finnst þér þá að
þú hafir betra tækifæri
annars staðar, t.d. hér á Íslandi, til að móta þinn eigin myndlistarheim? Hversu
upptekinn ertu af því að
fylla upp í ákveðin hlutverk hér?
SE: Íslenski myndlistarheimurinn er náttúrlega eins og flestir myndlistarmenn
hérna upplifa, ekki alveg
inni í þessum venjulega heimi. Og það er margt sem þykir sjálfsagt annars staðar
í heiminum sem er
ekki að finna hér. Það eru ýmsar stofnanir sem virðast ennþá vera í þróun og
infrastrúktúrinn í listinni
er ekki alveg orðinn fullþroska. Svo eru náttúrlega hlutir eins og skrif og
umræða og díalógur á milli
listamanna hér heima svona eins og þú veist, ekki alveg sambærilegir við það sem
við báðir þekkjum
kannski af reynslu þar sem við höfum verið á einhverju öðru menningarsvæði. Og
þú finnur það líka
sem margir hafa talað um, að rithöfundar eru á einhvern hátt meira inni í
samfélaginu en
myndlistarmenn. Ég get ekki svarað því hvers vegna það er, en það eru margir sem
hafa velt þessu fyrir
sér.
ÞÞ: Eitt af því sem hefur alltaf heillað mig í þínum verkum og þinni afstöðu er
þetta að því er virðist
átakalausa samræmi á milli textans sem þú skrifar inn í verkin og þess sem þú
teiknar. Hvernig línan og
textinn vinna saman, hvernig rím og rými vinna saman.
SE: Þetta yrði ekki inni á viðtalinu, er það?
ÞÞ: Jú, því spurningin er hvort þetta sé meðvitað hjá þér sem þátttaka í
einhverjum samfélagslegum
díalóg? Hvort þú sért að skapa samtal með textunum og teikningunum?
SE: Já, algerlega. Þetta er eiginlega einsog tilgátur eða möguleikar sem ég
varpa fram. Ég hef alltaf
ímyndað mér að þegar einhver sér svona verk þá haldi viðkomandi áfram með það án
þess að binda sig
við einhverja sérstaka niðurstöðu.
ÞÞ: Af því að þú nefndir rithöfunda og myndlistarmenn, þá er ekki oft sem maður
skynjar að lína og
rými í teikningu séu á einhvern hátt samhliða textahugsun í íslenskri myndlist.
Þetta minnir mig á suma
belgíska listamenn sem hafa gert virkilega góðar tilraunir á því að samræma mynd
og tungumál.
Spurningin er hvort þú hafir sjálfur upplifað að þú hafir komið skilaboðum á
framfæri, á sama hátt og
rithöfundar, í gegnum myndlistina?
SE: Ég held að þessi texti sem ég hef verið að gera sé nánast alltaf á einhverju
mjög gráu svæði.
ÞÞ: En hefurðu einhvern tímann tekið textann lengra? Út úr myndlistinni, tekið
næsta skref eða gerist
það af sjálfu sér?
SE: Já, kannski, ég þarf að skoða það betur.
ÞÞ: Þessi græna mynd frá Maastricht er komin mjög nálægt því að vera prósi eða
dagbókarbrot
rithöfundar, sýnt á ritþingi í Gerðubergi.
SE: Þetta er allt inni á þessu gráa svæði þar sem maður hefur leyfi til að vera
afslappaður. Það er meira
frelsi í myndlistinni en öðrum greinum, þú þekkir það kannski sjálfur.
ÞÞ: Já einmitt, þeim er ekki saman að jafna, því formi og athafnafrelsi sem
myndlistarmaður hefur
miðað við rithöfund. En varðandi gráa svæðið, viltu stækka þitt gráa svæði í
myndlistinni?
SE: Ég skil ekki hvað þú átt við.
ÞÞ: Þú hefur talað mikið um gráa svæðið sem ákveðið kjörlendi, en er það nógu
stórt fyrir þig? Viltu hafa
meira frelsi, ertu að reyna að brjótast út úr einhverju, finnst þér þú vera
lokaður af einhvern veginn eða
ertu sáttur þar sem þú ert?
SE: Það er ágætt að þú talaðir um þetta vegna þess að þetta er nákvæmlega það
sem þú ert sjálfur að
eiga við og flestir íslenskir myndlistarmenn. Þetta svæði stækkar við það að
listamenn fái meira á milli
handanna, séu færir um að ráða til sín aðstoðarmenn, leggja í einhvern kostnað á
verkum, ferðast og
safna hráefni í verk og allt það. Það að búa til listaverk núna er svipað
fyrirtæki og að búa til bíómynd,
það er nú eitthvað sem þú þekkir svolítið er það ekki? Þannig að ég held að það
sé mjög mikið gert af
verkum hérna heima sem eru bara skissur af einhverju stærra, út af þessu.
ÞÞ: Hvað með þig? Er það sem hér er sýnt byggt á því frelsi sem þú hefur til
þess að velja nákvæmlega
það sem þú vilt eða upplifirðu að þú sért að gera minni eða öðruvísi hluti en þú
gætir eða vildir?
SE: Ég held að flestir finni fyrir því að einhverju leyti án þess að það verði
neitt sérstaklega til trafala...
en það er eitt sem ég ætlaði að segja sem er mjög mikilvægt. Mikið af því sem ég
geri, og flestir
listamenn gera, er vinna á þessu ómeðvitaða plani. Það virðist vera þannig að
listin verði aldrei útskýrð.
ÞÞ: Samt lýsirðu eftir meiri umræðu?
SE: Nei, ég er ekki að fara inn í einsog þetta verk. Þetta er ekki sett inn í
samfélagið. Þá myndi ég gera
eitthvað annað. Þetta verk snýst eiginlega um svona jaðarspurningar. Þetta er
ekki í senternum.
ÞÞ: Þetta er svona eins og grein í Skírni frekar en í Lesbók Morgunblaðsins?
SE: Já, þess vegna eða ljósritað og heftað saman.
ÞÞ: Já, og látið liggja frammi á einu kaffihúsi.
SE: Eitthvað svoleiðis.
ÞÞ: Og hversu meðvitað er það? Hver er tilgangurinn með því að halda því á
jaðrinum sem þér liggur á
hjarta eða þín undirmeðvitund eða ómeðvitund er að skila? Hver er ávinningurinn
af að takmarka sig við
form sem við getum kallað ljósrit á kaffihúsi?
SE: Hver er ávinningurinn? Ég held að eins og ég sagði áðan þá þarf
kvikmyndafjármagn og staff til þess
að fara hina leiðina svo vel sé, en ég sé ekki alveg tilganginn. Ég er ekki í
neinni krossferð um það mál.
ÞÞ: Mér finnst þetta spennandi umræðuefni, þetta er svo stór hluti af
myndlistarmítunni. Því að gera
kvikmyndina um Krist annars vegar og litla teikningu af honum hins vegar er
gjarnan stillt upp sem
miklum andstæðum og oft látið einsog það sé lítið að gerast þarna á milli. Annað
hvort ertu commercial
og selur sál þína eða þú ert heiðarlegur og sannur í þínu litla horni. Þetta er
goðsögn sem ég á orðið
erfiðara með að trúa með hverju árinu sem líður. Þess vegna er ég forvitinn um
það hversu meðvituð
hún er. Hversu mikið þetta er ómeðvituð afneitun á raunverulegum möguleikum eða
hreinlega ákvörðun
um að sleppa sér ekki lausum, fara ekki út úr þessu ákveðna öryggi sem fylgir
litla sæta kaffihúsinu og
ljósritinu.
SE: Ég veit ekki hvort það fylgi því neitt sérstakt öryggi, ég held að það sé
frekar eins og ég sagði áðan,
meira miðað við aðstæður.
ÞÞ: Þú meinar að af því að þetta sýningarrými er svona þá vinnur þú svona?
SE: Ef þú kæmir með 100 milljónir er ekkert víst að ég hefði áhuga á því að
vinna endilega þetta verk
frekar en eitthvað annað. Þá væri þetta allt öðruvísi.
ÞÞ: En þá værir þú kannski að vinna á skala sem hefði þá hættu í för með sér að
þú gætir haft
raunveruleg áhrif, skapaðir jafnvel umræðu á þjóðarlevel, værirðu til í það?
SE: Já, ég held að það væru flestir listamenn til í það að fá meira fjármagn inn
í framleiðslu á verkum,
það er engin spurning. Við höfum svolítið dregist aftur úr hérna í samanburði
við þau lönd sem við
miðum okkur við. Þar erum við að sjá framleiðslu á listaverkum sem við höfum
ekki séns á að skapa
hér.
ÞÞ: En hversu mikið er þetta skortur á fjármagni? Er eitthvað af þessu kannski
skortur á útsjónarsemi
eða hugmyndum um leiðir til þess að gera hlutina án mikils kostnaðar?
SE: Það þarf náttúrlega útsjónarsemi, það er alveg rétt hjá þér, en spurningin
er hvort umhverfið sé fært
um að leggja til eitthvað samband. Ég er ekki viss um að það séu til nokkrir
peningar í svona hluti.
ÞÞ: Nú segja margir að það séu til peningar fyrir öllu, svo framarlega sem menn
skilja þörfina eða
tilganginn. Nú finnst mér sjálfum t.d. samtími okkar vera einkennilega
margskiptur hvað varðar skilning
á skapandi starfi. Það eru svo mörg viðhorf í gangi hjá þeim sem hafa völd og
peninga að maður getur á
sama degi hitt menn í áhrifastöðum sem eru annars vegar fulltrúar algerlega
afdankaðra gilda og
furðulega nýrra og ferskra hugmynda hins vegar. Og þessir síðarnefndu eru
tilbúnir að hlusta. Þannig
að ég hef grun um að vandinn liggi að stórum hluta hjá listamönnunum sjálfum.
Það er okkar að koma
með næsta leik, koma með nýjar hugmyndir, nýjar tillögur, ný viðhorf til þess
hvernig myndlist geti
orðið á stærri skala og virkari innan listheims, og utan, ef við viljum. Hvað
finnst þér um það? Er ég að
einfalda málið um of með því að setja ábyrgðina meira á okkur?
SE: Ég held að þetta sé alveg rétt vegna þess að í öðrum samfélögum er þegar
búið að endurskilgreina
listamanninn út frá raunveruleikanum, út frá því hvernig mál hafa þróast. Það er
ekki lengur ein tegund
heldur margar tegundir og einmitt sumir sem fara út í það að vera með
pródúktsjónir. Sjálfsmynd
listamannsins og hvað hann stendur fyrir hefur breyst. Hann er ekki lengur þessi
skapandi snillingur á
einhverju háalofti.
ÞÞ: Nei.
SE: Hann er meira eins og frumkvöðull og það þarf að setja verkin hans á
einhvern markað eða í
eitthvað stærra samhengi. Það er alveg farvegur fyrir svoleiðis erlendis þar sem
til eru miklu flóknari
tengsl og stærri uppákomur heldur en við höfum hér á landi. Það er voða lítið
sem við getum gert í
rauninni sjálfir, við getum ekki breytt Íslandi, skipt um hagkerfi eða eitthvað
álíka.
ÞÞ: Mér finnst freistandi að skoða þetta út frá þessum verkum hér. Þú ert að
tala um frelsi
einstaklingsins til þess að skapa heiminn, þinn heim eða sinn heim.
SE: Eins og ég sagði þá er þetta svona stímúlant til að fara inn á þessa hugsun.
Jesús og Hannes
Hólmsteinn og Margret Thatcher tákna öll eitthvað á einhverju leveli í
samfélaginu, en í þessu samhengi
fer þetta inn í öðruvísi umræðu. Þetta eru eiginlega ekki þau heldur er þetta
eitthvað annað.
ÞÞ: En þessi einstaklingshyggja, og spurning um einstaklingsfrelsi, felur hún í
sér hvatningu sem er
beint sérstaklega að einhverjum einum hópi fremur en öðrum? Er henni beint að
listamönnum eða að
almenningnum á götunni sem er að koma á sýninguna? Hafðir þú einhverja sérstaka
í huga til þess að
örva?
SE: Alls ekki. Nú hef ég sennilega tækifæri til þess að koma þessu verki annað,
ekki bara sýna það hér
heima heldur í öðru umhverfi. Það er alltaf spennandi að sjá hvaða viðbrögð
verða við því þar.
ÞÞ: Ímyndum okkur mann sem kemur á sýninguna núna og skynjar hlutverkið þitt í
Maastricht annars
vegar og þær frelsishugleiðingar sem eru hér hins vegar. Hann tekur þetta til
sín og ákveður að taka
upplifunina skrefinu lengra. Hann vill ræða við þig sína heimssýn og hvað hann
getur gert til að breyta
stöðu mála. Vilt þú taka þátt í umræðunni eða ert þú horfinn úr þessari mynd?
SE: Ég er horfinn, ég er ekki tilbúinn til þess.
ÞÞ: Þú losar þig hér með undan þeirri áþján.
SE: Ég hef ekki áhuga.
ÞÞ: Og það er þitt frelsi.
SE: Já, já.
ÞÞ: En ertu þá með öðrum orðum að segja að þú ætlir ekki einu sinni að velta því
fyrir þér hvernig
verkið hrífur eða virkar? Skiptir það þá engu máli?
SE: Jú. Eins og við þekkjum, af því að við höfum báðir unnið við auglýsingagerð
og myndlist, þá notum
við ákveðna tækni til þess að hreyfa við fólki og það er náttúrlega gert í þessu
verki.
ÞÞ: Þannig að þú ert að reyna að hafa áhrif?
SE: Það er það sem fólk sækist eftir á einhvern hátt, það kemur á sýningu til
þess að komast í eitthvert
ástand.
ÞÞ: Hefur þú sjálfur einhverja hugmynd um hver væru bestu hugsanlegu viðbrögð
sem þú gætir fengið
eða bestu áhrif sem þú gætir frétt af? Ertu með draumsýn um það hvernig þetta
gæti hreyft við
einhverjum einstaklingi?
SE: Ég held að það sé svona niðurbrot á einhverri klisju, það er að segja
niðurbrot á svona
staðhæfingum eins og t.d. trúarlegum staðhæfingum, pólitískum staðhæfingum eða
þá flokksbundnum
staðhæfingum, sem hefta fólk. Halda því í nokkurs konar gír, ef þú skilur hvað
ég á við.
ÞÞ: Eru fleiri verk á sýningunni?
SE: Nei, það verður bara þetta og svo einhver rit eftir þetta fólk, fyrir fólk
að fletta í.


 
Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá

Frelsi er eitt af þessum hugtökum sem er algjörlega samofið einstaklingnum, hegðun hans og atgervi. Þú stendur frammi fyrir hópi einstaklinga. Eftir tiltölulega stutta rannsóknarvinnu gætirðu raðað þeim þannig upp í línu að á öðrum endanum væri sá frjálsasti, en á hinum sá sem úr minnstu frelsi hefði að moða. Þessa línu köllum við frelsiskvarða umrædds úrtaks. Hvernig er þetta hægt? Þú grefst fyrir um aldur, heilsu, eignir, tekjur, umsvif og ættir og óræðar víddir (sem við gætum jafnvel kallað listhneigð) og nokkur önnur atriði. Til þess að geta aflað þekkingar á frelsi eins og það birtist í raunveruleikanum eru ekki aðrir kostir í stöðunni, en að fylgjast kerfisbundið með hegðunarmynstri útvalinna einstaklinga af frelsiskvarðanum.
Taka t.d. fyrir þá sem eru á sitthvorum enda og tvo til þrjá þeirra sem eru í miðjunni. Með þessari atferlisrannsókn getur þú svo staðsett sjálfan þig á kvarðann á grundvelli frelsishugtaksins. Þeir eru svalir þeir Steingrímur Eyfjörð og Þorvaldur Þorsteinsson; þeir virðast nú vera að skora á ótilgreinda einstaklinganna, en þó samt sérstaklega þá sem leggja leið sína í Kling & Bang gallerí, að spyrja hverja aðra: „Hvor er frjálsari þú eða ég?“ Eitt svar gæti t.d. verið: „Þú ert frjálsari en ég, en mitt frelsi er betra en þitt!“ Gæði og magn frelsis er meðal þess sem Steingrímur Eyfjörð(og Þorvaldur Þorsteinsson) setur/setja spurningarmerki við með sýningu sinni/með sýningum sínum. Atferli hans/þeirra og umsvif varpa óumflýjanlega ljósi á þetta viðfangsefni; - fylgist því vel með birtingarmyndum hans/þeirra um þessar mundir.


Hannes Lárusson, ágúst 2004

 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is