braut1
Una Björg Magnúsdóttir
TENDER BEND í Kling & Bang gallerí næstkomandi laugardag, 7. mars kl. 17.
07. 03. 2015 - 29. 03. 2015
 
Una Björg Magnúsdóttir opnar sýninguna TENDER BEND í Kling & Bang gallerí næstkomandi laugardag, 7. mars kl. 17.


Það er Kling & Bang heiður að fá að kynna Unu Björg til leiks með sína fyrstu einkasýningu. Grunnhugmyndir um skúlptúr, teikningu og eiginleika gjörningsins koma við sögu í TENDER BEND. Bið, spenna, endurtekning og hið einstaka augnablik eiga sér stað samtímis.

Um sýningarrýmið hlykkjast sérsmíðuð braut sem lagar sig lauslega að formi rýmisins. Tveir kappakstursbílar með hvítt blað á milli sín keyra stöðugt eftir brautinni. Þessi skúlptúr ferðast fjálglega eftir henni og leggur þannig áherslu á teikningu brautarinnar, teikingu sem reiðir sig á form rýmisins. Sviðsett teikning, sem endurtekur sig út í það óendanlega.

“Hugmyndin að brautum vaknaði þegar ég kíkti inn um glugga hjá fatahreinsun. Hún var að vísu lokuð og allt slökkt, en fatabrautin ef svo má kalla, liðaðist ótrúlega fallega um litla og þrönga rýmið. Hún hafði verið sérsmíðuð inn í þetta rými til þess að nýta það sem best.”

Í Kling & Bang hefur listamaðurinn einmitt sérsmíðað slíka braut sem fremur síendurtekna hugleiðingu um rýmið og eiginleika teikningar.

Annað verk á sýningunni er líka sísviðsett teikning í formi skúlptúrs. Night Blooming Mock Orchid er endurgerð á upplifun sem hún varð fyrir á vinnustofunni. “Ég setti tvö kerti í sama stjaka án þess að búast við að neitt sérstakt myndi gerast. Í raun var ég bara að að reyna dreifa athyglinni. Allt í einu tók ég eftir því að neðra kertið var að brenna það efra. Það sveigðist yfir neðri logann og myndaði lítið bál þegar neðri login komst í kveikinn á því efra. Jafn skyndilega og það hófst var sjónarspilið yfirstaðið. Þetta minnti mig á atriði úr bíómyndinni Denna dæmalausa. Þar hefur persónan Mr. Wilson beðið í 40 ár eftir að sjá stórkostlegu orkideuna sína blómstra sem blómstrar aðeins í örfá augnablik. Vegna Denna missir hann þó af augnablikinu.”

Una Björg Magnúsdóttir (f.1990) útskrifaðist með BA gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2014. Nýlegar sýningar sem hún hefur tekið þátt í eru Wavering á Artclick Daily, Svona svona svona í Safnahúsinu og Veldi í Skaftfell menningarmiðstöð Austurlands. TENDER BEND er hennar fyrsta einkasýning.


Allir eru velkomnir á opnunina, laugardaginn 7. mars kl. 17 og sýningin stendur til 29. mars.

Kling & Bang er opið fimmtudag til sunnudags kl. 14-18 og aðgangur er ókeypis sem endranær.
 
 
 
 
 
Grandagarğur 20 - 101 Reykjavík kob@this.is