unndor-poster-2
Unndór Egill Jónsson
CUL-DE-SAC
31. 10. 2020 - 13. 12. 2020
 
Elsku Unndór og Daníel,

Mig langar til að spyrja ykkur nokkura spurninga. Ef þið vilduð þið vera svo góðir að svara, kannski bara með drögum að setningum…þá væri það gaman… þannig helst hugsunin lifandi og vefur sig í kringum sýningu og augu.


1.
Í lauslegri þýðingu minni á klausu sem franski mannfræðingurinn og rithöfundinum George Bataille skrifaði í bókinni um innrænu reynsluna, ekki í sögunni um augað og pissið, þá segir hann þetta:

Ég lifi í ofurnæmum reynsluheimi þar sem rökrænar útskýringar eiga ekki við. Þökk sé guðdómleikanum hef ég upplifað eitthvað svo brjálað að menn myndu hlæja ef ég reyndi að segja frá því… Ég rata í blindgötu, er í æverandi ógöngum. Það murkast úr möguleikunum, það tínast af þeim spjarirnar þar til ómöguleikinn er ríkjandi. Augliti til auglitis við ómöguleikann, óheyrilegan, óyggjandi þegar ekkert er lengur hægt… þá sýnist mér möguleikinn á guðdómlegri reynslu opnast, samhliða pínunni.

Mynduð þið segja að maskínan á sýningunni gæti verið svona vél sem lætur hugann tætast upp og hjartað líka, pyntingartæki, sem er samt um leið frumspekileg velgjörðarvél, sem brýst í gegnum innri hömlur og opnar svið þar sem allt annað er mögulegt en við ímynduðum okkur?

Eða bara klukkuverk… þarmar? Vissulega eru þarmarnir maskínan og pyntingarvél og allt í senn. En ekki má gleymast að þegar gangverkið er búið að fara í hring þá slæst í lítið Gong… (sem er svona Eureka móment og svo hreyfist lítill hrísla (dauð)). Er ekki frumspekilega vélgjörðarvélin þá meltingin sem segir Gong og fær svona Eureka bliss stöku sinnum?

2.
Andlegur skítmokstur snýst um að ryðja blindgötur. Það er líka aldagömul hernaðartaktík að gabba óvinaliðið í blindgötu og króa svo af. Haldið þið að maður þurfi að króa sjálfan sig af til að komast yfir á næsta svið? Eru spegilmyndir af gömlu borgarskipulagi innan í okkur og ef við viljum breyta því, þurfum við þá að byrja á blindgötunum? Ef maður er alltaf villtur, þarf maður þá að fara í aðra innri borg? Er það byltingin?

Það er tvennt í stöðunni: Að stoppa eða brjótast í gegnum múrinn (jú kannski hörfa). Svo máttu ekki gleyma að geitungabúið er við botninn á blindgötunni, er ekki viðbúið að það verði stríðástand ef þú hreyfir við búinu, bylting jafnvel? Allavega fyllist maður lotningu gagnvart geitungabúinu sem svífur í höfði manns. En það er líka gerræðislegt, yfirvofandi ógn.

3.
Blindgata alræðisins, það bíða allir eftir viðsnúningnum: Þegar ljóst er að lengra verður ekki komist. Útrýmingabúðirnar. Á okkar tímum eru þær búðir orðnar ansi margar þar sem við getum keypt dýr í útrýmingarhættu. Núna þegar þær búðir eru lokaðar, haldiði að verði forsenda til að opna eitthvað annað? Búðir sem leiða okkur inn í annað en útrýmingu? Inn í opið rými?

Treysti mér ekki til að svara þessu, þung spurning sem klífur veruleikann sem við búum við. Ég skelf í tilvistinni við að þurfa að svara þessu.

3.
Það er eitt svæði á líkamanum sem er ósýnilegt og á sér ekkert heiti nema Cul de sac. Það er mjúka húðin milli rassgats og pungs, þanin og þunn. Haldiði að þar sé einhver tengistöð?

Ef við yfirfærðum myndlíkinguna yfir á pólítík, þá já algerlega, en við höfnum samt sem áður allri samlíkingu við fallusinn en þetta er svæði sem aðrir listamenn hafa gert að ævistarfi að vinna m.a. með, sbr. Cremaster eftir Matthew Barney - það er reyndar ekki hið sama, en líka Erling T.V. Klingenberg o.s.frv. Já já, nóg af tengingum. Mikil listastöð.

4.
Þegar ég hugsa um lampana kemur hönnunarlegur lúxus upp í hugann, einhver extravagans, kannski jafnvel úreltur lúxus-staðall, úrelt heimilisskipulag. Eða er það ekki enn orðið úrelt? Þurfum við fyrst núna að ná inn á heimilið öllu sem er úthagi okkar þrár? Ef við erum lokuð inni? Púðar með ástimpluðum blómum, ísaumuðum ilmjurtum. Áminning. Og muna að lesa mjög hægt. Gefa skít í alla hraðastaðla? Og greinarmuninn á úti og inni, heima og heiman?

Hafði heyrt lampana tala? Segja þeir: Kveiktu! Kveiktu í mér? Eða biðjast þeir vægðar? Lampar úr birkihríslum úr skóginum sem á að fara að skemma, Teigskógi. Er það Tengiskógurinn okkar, okkar tenging við heiminn? Rómantíkin er rétt að byrja.

Sé fyrir mér ljós inni í tilraunastofu þar sem sjálf tengingin á milli útisins og innisins, heimsins og okkar, náttúrunnar og tækninnar, geómetríunnar og tungumálsins er til rannsóknar. Hvar mynduð þið vilja kveikja ljós? Hvað þýðir Unndór? Fallegt nafn.

Tilvísuninn í Teigskóg er dásamleg, því þessar hríslur er svo viðkvæmar og kræklóttar og jafnvel tilgangslausar en í því býr fegurðin, Birkið sem er svo lítið og hrörlegt í samanburði við "continental" trjátegundinar sem hér vaxa að þetta verður óafvitandi samburður á menningarheimum… Og já, auðvitað þarf að kveikja á nýjum ljósum, nýjum lífsskilningi sem fæðist á jaðri Teigsskógar.

5.
Bekkurinn. Er þetta tossabekkurinn? Í bekkjarkerfi sem er að hruni komið? Eða á ég stefnumót á þessum bekk með metra á milli og full af virðingu fyrir þeim sem snýr öfugt? Mér finnst vera mikil virðing í þessum grip. Gott að setjast á hann til að íhuga næstu skref. Gera tilraun til að íhuga ógöngurnar. Finna hjartsláttinn í rofinu. Það er engin valdbeiting í boði lengur. Reyna að segja frá. Brjálæðinu. Og hlæja. Er það ekki góð strategía?

Bekkurinn er kominn fram á gang í rýminu, vissulega tossabekkur þú getur setið á þessum bekk og skammast þín. En án gríns þá náði bekkurinn ekki inní sýninguna sjálfa. en hefur verið settur í skammarkrókinn.

6.
Það er ekki til nein byltingarstrategía. En ef við fylgjumst með stráinu snúast. Erum við þá einhverju nær? Handan við lífhermun; Innspírasjón innan úr marg-samanþjöppuðum merkingar-römmum. Og hláturinn.
Illgresi. Lækningarjurtir. Handverk. Hugljómun. Vistvænu vinir, við erum komin í svo hrikalega blindgötu í öllu okkar hugsanakerfi, úreltar andstæður, falskir valkostir, fasískir afarkostir. Listin og listaheimurinn varð kapítalismanum að bráð. Kapítalismanum og tvíhyggjunni sem býr til kanónur og afgreiðir heilu engin, slær stráin eins og spil númer þrettán, djöflast áfram og úðar skordýraeitri og einfeldningslegum og auðtrúanlegum ranghugmyndum sem ratar í morgunkorn okkar og munna. Ekki nóg að snúa okkur í öfuga átt en hvernig eigum við að snúa okkur í þessu?

Fjögur strá, tifandi strá. Tifandi tímasprengjur.

7.
Eigum við mótleik? Er hann orðinn úreltur og ótrúverðugur? Og ef hann er nýr af nálinni, verður lífskraftur hans ekki sogaður inn í martröðina eftir nokkrar opnanir? Þegar trúðarnir eru orðnir þreyttir á að segja brandara og hreyfa við öllu og trésmiðirnir orðnir innhverfir aftur? Getum við enn byggt Trójuhestar sem standa undir nafni? Ef við komumst út úr borginni gegnum blindgötuna, þá getum við komist aftur inn og gert byltingu. Risavaxið geitungabú eða tómstunda-trékofi. Ef við gleymum okkur í leiknum eins og barn. Af því það er afmælisdagur Nietzsche í dag er gott að vísa enn einu sinni í hann. Þann sem sturlaðist í tilraun sinni til að rata um ógöngurnar í hugsanakerfunum og byrjaði að tala ástúðlega við hesta á latínu. Verum eins og barn að leik. Eða var það orðalag Kierkegaards? Það hugsa alltaf svo margir það sama á sama tíma en vantar bara kommúníkasjónina. En við við gleymum okkur, munum bara leikinn. Gleymum svo leiknum. Munum bara okkur. Gleymum svo okkur, munum bara hinn, gleymum svo hinum, munum bara tenginguna á milli okkar. Gleymum svo tengingnni á milli okkar. Munum bara? Hvað verðum við að muna? Hvaða sál er þarna inni í litla graðfolanum ykkar? Trjójugraðfolinn sem var í tossabekknum en slapp út og fór á beit í Teigsskógi. En svo þegar vegagerðin ákveður að ryðja burtu þeim skógi, hvað verður þá um folann? Hvers konar landmæri er þessi trójuhestur að brjótast í gegnum? Og hvers konar hermenn eru innan í honum? Listamenn? Smiðir? Dulhyggjumenn? Byltingarbændur? Hverjir? Eða er hann tómur? Er það tómið sem mun bjarga okkur? Stórt er spurt. Til hamingju með stórkostlega sýningu. Er þetta ekki bara orðið nokkuð gott?


P.s. varðandi strá-maskínurnar
eða strásnúninginn
spurning um fáránleika vistvæns kapítalisma og vistvænnar hönnunar, vistvænnar listar etc, fáránleiki lífhermunar...
en líka tilfinning fyrir þrá eftir tilfinningu og tengslum innan í kerfisbundnu og oft blindu orsakasamhengi lífsins.

p.p.s. varðandi stráin:
er kannski viðnámið sem skiptir máli jafn veikburða og eitt strá innan í hermaskínunni? eins og svarið: "helst ekki" eða "eitthvað annað" gagnvart valdinu? Svar sem virðist vera blindgata og til marks um innilokun. Enginn sprengikraftur í því eða í besta falli hlægilegur? En samt. Samt er eitthvað sem gerist á leiðinni fram og aftur blindgötuna, það breytist eitthvað smávegis. Í trufluninni, truflinu, tuðinu. Vélvirkinn lagar allt en skilur ekki allt.

Já, viðnámið skiptir máli, það er taktur í því einsog þörmunum en í því er líka einhverskonar ógn eða ofbeldi. Gangvirkið hefur þennan eina tilgang: Að hrista líftóruna úr stráinu. Murka úr því lífið. Það er að vísu löngu dautt . . .







 
 
 
 
 
Grandagarður 20 - 101 Reykjavík kob@this.is